Fanney Inga Birkisdóttir, markvörður Vals og nýliði í íslenska A-landsliðinu í knattspyrnu, kveðst afar stolt af því að hafa fengið kallið í fyrsta sinn.
„Tilfinningin er frábær. Það er mikið stolt sem fylgir því. Þetta hefur verið markmið frá því maður var lítill og það er gaman að vera komin á þennan stall,“ sagði Fanney Inga í samtali við mbl.is, skömmu fyrir fyrstu æfingu sína með liðinu á Laugardalsvelli í morgun.
„Það var létt endurheimt í gær og svo er núna fyrsta almennilega fótboltaæfingin.
Ég var mjög spennt og stressuð í gær þannig að það var fínt að geta losað stressið á endurheimtar æfingunni og koma svo ferskari inn í dag,“ bætti hún við.
Fanney Inga er aðeins 18 ára gömul og fékk traustið sem aðalmarkvörður Íslandsmeistara Vals á tímabilinu eftir að Sandra Sigurðardóttir lagði óvænt hanskana á hilluna snemma árs.
„Það var mikil óvissa sem ríkti í byrjun árs með Söndru og hvað hún ætlaði að gera. Svo held ég að hún hafi tekið ákvörðun um að hætta um miðjan febrúar.
Þá komst þetta meira á hreint hvernig staðan yrði. Svo kom stelpa frá Bandaríkjunum til þess að veita mér samkeppni en ég spilaði vel og fékk traustið,“ sagði markvörðurinn efnilegi.
Sandra hefur síðan tekið hanskana af hillunni og er sömuleiðis í landsliðshópnum.
Fram undan er verkefni í Þjóðadeild UEFA þar sem Ísland mætir Wales á föstudagskvöld og Þýskalandi í Bochum á þriðjudaginn.
„Mér líst mjög vel á verkefnið. Þetta verða hörkuleikir og erfiðir leikir,“ sagði hún.
Spurðu hverju mætti eiga von á frá velska liðinu á föstudag sagði Fanney Inga að lokum:
„Þær eru mjög aggressívar á miðjunni og reyna að keyra hratt á mann, þannig að við reynum að halda okkar skipulagi og sjáum mörg tækifæri í því.
Vonandi koma sem flestir í stúkuna og styðja okkur áfram af því að við þurfum klárlega á stuðningnum að halda. Það er bara gaman að fá að máta sig við svona sterka andstæðinga.“