Bayern hefur enn fulla trú á mér

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir stillir sér upp fyrir æfingu á Laugardalsvelli …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir stillir sér upp fyrir æfingu á Laugardalsvelli í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þjóðadeildin er sterk keppni og við erum í sterkum riðli. Allir leikir í honum eru hörkuleikir þannig að við erum bara mjög spenntar,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, leikmaður Bayer Leverkusen og íslenska landsliðsins, í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í dag.

Fram undan er leikur í riðli 3 í A-deild Þjóðadeildar UEFA á Laugardalsvelli á föstudagskvöld, þar sem liðið mætir Wales.

„Þetta er hörkulið með marga leikmenn sem spila í ensku úrvalsdeildinni, sem er náttúrlega mjög sterk deild.

Ég held að þetta verði jafn leikur. Það eru engir léttir leikir í þessum riðli. Wales er hörkulið og þetta verður hörkuleikur,“ sagði Karólína Lea um velska liðið.

Er mjög fersk

Hún glímdi við leiðindameiðsli á síðasta ári og sneri loks aftur í landsliðið í febrúar á þessu ári eftir um sjö mánaða fjarveru. Karólína Lea kvaðst vera búin að ná sér að fullu af meiðslunum.

„Já, mér líður mjög vel og líkamlega er ég mjög fín. Það er gott að vera að byrja tímabilið úti núna. Ég er bara mjög fersk.“

Líður vel á nýja staðnum

Hún gekk til liðs við Leverkusen á lánssamningi frá Þýskalandsmeisturum Bayern München í sumar og líst vel á tímabilið, sem hófst um síðustu helgi, með nýja liðinu.

„Það hefur gengið fínt. Við fengum náttúrlega skell í fyrsta leik, 3:0 [gegn Wolfsburg], en fengum kannski ekki léttasta leikinn til að byrja með.

Mér líður mjög vel á nýja staðnum. Það er gott þjálfarateymi og frábærir leikmenn. Ég er mjög spennt fyrir tímabilinu,“ sagði Karólína Lea.

Verður vonandi að veruleika

Er þér ætlað stórt hlutverk hjá Leverkusen?

„Já, vonandi. Það er náttúrlega erfitt að segja til um það svona í byrjun tímabilsins en vonandi vex maður inn í þetta umhverfi og það verður að veruleika,“ sagði sóknartengiliðurinn.

Spurð út í framtíð sína hjá Bayern München sagði Karólína Lea að hún ætti í góðum samskiptum við fólk hjá félaginu, sem hefði trú á því að hún gæti enn látið að sér kveða hjá stórliðinu.

„Ég er í sambandi við starfsfólkið þar og þau hafa ennþá fulla trú á mér. En auðvitað tökum við bara eitt ár í einu og svo sjáum við hvert það leiðir mann,“ sagði Karólína Lea að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert