Blikar nálægt stórkostlegri endurkomu

Alexander Helgi Sigurðarson fær að finna fyrir því í kvöld.
Alexander Helgi Sigurðarson fær að finna fyrir því í kvöld. Ljósmynd/Maccabi Tel Aviv

Breiðablik mátti þola 3:2-tap á útivelli gegn Maccabi Tel Aviv frá Ísrael í fyrstu umferð B-riðils Sambandsdeildar karla í fótbolta í Tel Aviv í kvöld. Var um fyrsta leik hjá íslensku karlaliði í riðlakeppni í Evrópukeppni að ræða.

Blikarnir gáfu fá færi á sér á fyrstu tíu mínútunum, en á elleftu mínútu skoraði Yvann Macon stórglæsilegt fyrsta mark leiksins. Bakvörðurinn lét þá vaða af 25 metra færi og boltinn söng uppi í horninu, án þess að Anton Ari Einarsson kæmi nokkrum vörnum við í markinu.

Eftir markið gekk Breiðabliki illa að skapa sér færi og heimamenn tvöfölduðu forskotið á 24. mínútu er Eran Zahavi hristi Damir Muminovic af sér í teignum og skoraði af öryggi.

Átta mínútum síðar var staðan orðin 3:0, því Dan Biton slapp einn gegn Antoni Ara eftir sendingu frá Dor Peretz og skoraði af öryggi framhjá Antoni.

Breiðablik lagaði stöðuna rétt fyrir hálfleik, því færeyski sóknarmaðurinn Klæmint Olsen rak endahnútinn á afar góða sókn Breiðabliks á 44. mínútu. Alexander Helgi Sigurðarson átti þá fallega sendingu upp hægri kantinn á Jason Daða Svanþórsson og Mosfellingurinn sendi fyrir markið á Klæmint sem skoraði af stuttu færi.

Reyndist það síðasta mark fyrri hálfleiks og Blikar tveimur mörkum undir í hálfleik, 3:1.

Klæmint Olsen var aftur á ferðinni á tíundu mínútu seinni hálfleiks þegar hann skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá Höskuldi Gunnlaugssyni og staðan skyndilega orðin 3:2.

Blikum tókst hins vegar ekki að fylgja markinu eftir með auknum sóknarþunga, því heimamenn voru ansi skynsamir og gáfu fá færi á sér það sem eftir lifði leiks. Voru þeir líklegri til að bæta við en Breiðablik að jafna og eins marks tap Blika því raunin.

Næsti leikur Breiðabliks í keppninni er gegn Zorya Luhansk frá Úkraínu 5. október og verður leikið á Laugardalsvelli.

Maccabi Tel Aviv 3:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Það er því miður fátt sem bendir til þess að Breiðablik sé að fara að jafna. Kópavogsliðið lítið komist áleiðis í 15 mínútur eða svo.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert