Eftirsjáin er vondur ferðafélagi

Óskar Hrafn þakkar stuðningsmönnum Blika fyrir eftir leik.
Óskar Hrafn þakkar stuðningsmönnum Blika fyrir eftir leik. Ljósmynd/Breiðablik

„Ég skil að menn séu gramir út í sjálfa sig,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta, í viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum félagsins eftir 3:2-tap liðsins gegn Maccabi Tel Aviv frá Ísrael á útivelli í kvöld.

Breiðablik lenti 3:0 undir í fyrri hálfleik, en Klæmint Olsen svaraði með tveimur mörkum sitt hvoru megin við hálfleikinn og þar við sat.

„Að undanskildum fyrstu 3-4 mínúturnar, þar sem menn komust nokkrum sinnum í góðar stöður, þá voru fyrstu 25 mínúturnar ekki nógu góðar. Menn voru flatir og stigum ekki nógu hátt á þá.

Við vorum einu skrefi á eftir, svolítið litlir og það var mikill skrekkur. Eftirsjáin er vondur ferðafélagi. Svo sýnum við styrk og þorum að stíga upp. Við sýndum það sem lið að við getum vel spilað á móti Maccabi Tel Aviv á þessum erfiða útivelli,“ sagði Óskar.

Óskar vill sjá sína menn byrja betur í næstu Evrópuverkefnum.

„Við þurfum að byrja leiki af krafti og vera hugrakkir frá byrjun. Það þýðir ekki að fikra sig áfram eins og þú sért í einhverju myrkri. Það liggur ljóst fyrir. Við þurfum svo að keyra á og fara fulla ferð. Þá eigum við góða möguleika á að gera þessum liðum grikk,“ sagði Óskar.

Viðtalið má sjá hér fyrir neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka