Verð kannski ánægður síðar

Klæmint Andrasson Olsen í leiknum í gærkvöldi.
Klæmint Andrasson Olsen í leiknum í gærkvöldi. Ljósmynd/Maccabi Tel Aviv

Færeyski sóknarmaðurinn Klæmint Andrasson Olsen skráði sig á spjöld íslenskrar knattspyrnusögu þegar hann skoraði bæði mörk Breiðabliks í 3:2-tapi liðsins fyrir Maccabi Tel Aviv í B-riðli Sambandsdeildar UEFA í Ísrael í gærkvöldi.

Heimamenn komust í 3:0 snemma leiks áður en Klæmint minnkaði muninn með tveimur góðum mörkum.

„Það er alltaf ánægjulegt að skora mörk en við töpuðum leiknum og því er ég mjög svekktur akkúrat núna. Kannski verð ég ánægðari síðar,“ sagði Færeyingurinn í viðtali sem Breiðablik birti á samfélagsmiðlum sínum í gærkvöldi.

„Fyrstu 20 mínúturnar vorum við ekki á þeim stað sem við áttum að vera á. Fyrstu 20 mínúturnar fóru alveg með okkur. Það er eitthvað sem við þurfum að bæta fyrir næsta leik,“ bætti hann við.

Liðin mætast aftur í lok nóvember á Laugardalsvelli. Þar eru Blikar staðráðnir í að ná fram hefndum.

„Við höfum trú á því að við getum gert það. Ef við hefðum spilað allan leikinn eins og kannski síðustu 70 mínúturnar hefðum við að minnsta kosti fengið eitt stig,“ sagði Klæmint að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert