Hildur Antonsdóttir er nánast nýliði í íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta þó hún sé 28 ára gömul en hún lék allan leikinn á miðjunni þegar Ísland vann Wales, 1:0, í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvellinum á föstudagskvöldið.
Það var hennar fyrsti leikur í undankeppni stórmóts og aðeins sjötti A-landsleikur hennar á ferlinum en sá fjórði á þessu ári. Hún hljóp mikið í leiknum gegn Wales, enda voru miðjumenn íslenska liðsins í miklu varnarhlutverki en Hildur sagði í spjalli við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í dag að hún væri búin að jafna sig.
„Já, mér líður alla vega mjög vel í líkamanum í dag. Við vorum á ferðalagi í gær og náðum svo að hvíla okkur mjög vel eftir að við komum hingað til Düsseldorf. Síðan var málið að næra sig vel og þar með er líkaminn kominn í gott stand," sagði Hildur.
Hún sagði að leikurinn við Þýskaland á þriðjudaginn yrði án efa enn erfiðari en leikurinn við Wales.
„Já, það verður einmitt enn meiri áhersla á varnarleikinn því þær þýsku munu verða meira með boltann en við. En eins og við sýndum gegn Wales erum við góðar í því að verjast og erum ekki hræddar við að vera í vörn, þannig að það muni bara hjálpa okkur fyrir leikinn gegn Þjóðverjum.
Við þurfum að passa sérstaklega vel að hleypa Þjóðverjunum ekki í gegnum okkur, halda miðjunni þéttri og láta þær ekki spila í gegn. Vernda markið okkar sem best," sagði Hildur.
Hún sagði að það hefði gengið mjög vel að koma inn í liðið sem nýr leikmaður á þessu ári.
„Þetta hefur verið mjög fínt. Stelpurnar eru búnar að hjálpa mér mjög mikið við að komast inn í allt saman. En ég hef þekkt þær lengi, lengi, þannig að það var auðvelt að komast inn í hlutina," sagði Hildur.
Hún gerðist atvinnumaður með Fortuna Sittard í Hollandi sumarið 2022 og er að hefja þar sitt annað tímabil og tók undir þá spurningu hvort það hefði ekki hjálpað sér að taka skrefið inn í landslið Íslands.
„Já, mér finnst það. Ég er að spila núna á aðeins hærra getustigi en heima á Íslandi og það hefur hjálpað mér til að verða tilbúin í landsleikina," sagði Hildur sem lék 157 leiki í efstu deild og skoraði 32 mörk fyrir Val, HK/Víking og Breiðablik áður en hún fór til Hollands.
Hildur og samherjar hennar í Fortuna Sittard hafa byrjað nýtt tímabil mjög vel og eru á toppi hollensku deildarinnar með sex stig eftir sigur á Feyenoord á útivelli í annari umferðinni á dögunum.
„Þetta hefur farið mjög vel af stað og okkar markmið er að ná öðru tveggja efstu sætanna, og komast þannig í Meistaradeildina, sem ég held að sé alveg möguleiki. Í fyrra var þetta fyrsta árið hjá nýju liði sem var að koma saman, margir nýir leikmenn, en nú höfum við spilað saman í rúmt ár með nánast sama hóp og þá getum við örugglega tekið næsta skref.
Þetta er mjög gott félag að vera hjá, umgjörðin um liðið er virkilega góð, æfingarnar flottar, og þetta er nánast fullkomið," sagði Hildur Antonsdóttir.