Íslandsmeistarar Víkings úr Reykjavík og Breiðablik mættust á Kópavogsvelli í kvöld í Bestu deild karla í fótbolta og endaði leikurinn með 3:1-sigri Breiðabliks.
Eftir leikinn er Breiðablik í þriðja sæti með 41 stig, fjórum stigum meira en Stjarnan sem er með 38 stig. Það eru níu stig eftir í pottinum og því tölfræðilegur möguleiki á öðru sætinu en þar er Valur með 49 stig.
Blikar stóðu heiðursvörð fyrir Víkinga í byrjun leiks og óskuðu þeim þannig á hefðbundinn hátt til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn.
Leikurinn byrjaði helst til rólega en fljótlega hitnaði í kolunum og fóru spjöld á loft. Víkingar voru talsvert betri í fyrri hálfleik en mörkin komu þó ekki frá þeim. Fyrsta færi leiksins kom á 14. mínútu þegar Pablo Punyed gaf boltann fyrir með jörðinni og Nikolaj Hansen skaut honum viðstöðulaust rétt framhjá.
Á 19. mínútu komst Aron Elís Þrándarson í frábært skotfæri en Blikar vörðu boltann á marklínu. Næsta færi Víkinga kom á 27. mínútu þegar Gunnar Vatnhamar fékk boltann og skaut í þverslána.
Á 36. mínútu sendi Klæmint Olsen boltann til hægri á Viktor Karl Einarsson sem keyrði með boltann inn í teig og skoraði, þrátt fyrir að Ingvar Jónsson í marki Víkinga hafi verið í boltanum.
Blikar sóttu aðeins í sig veðrið eftir markið og aðeins níu mínútum síðar fengu þeir hornspyrnu, sem endaði með að Höskuldur Gunnlaugsson skoraði fallegt mark. Staðan í hálfleik var því 2:0 fyrir Breiðabliki.
Víkingar gerðu athyglisverða breytingu í hálfleik. Af velli fór Ingvar Jónsson markvöður og inn á kom varamarkvörður þeirra, Þórður Ingason. Af þessu má dæma að Arnar Gunnlaugsson þjálfari liðsins hafi ekki verið sáttur með frammistöðu Ingvars í báðum mörkum Breiðabliks.
Mikil læti voru í leikmönnum í síðari hálfleik en minna um færi. Liðin skiptust á að sækja en hvorugt liðið skaraði fram úr.
Víkingur minnkaði þó muninn á 86. mínútu þegar Birnir Snær Ingason skoraði eftir sendingu frá Erlingi Agnarssyni, 2:1.
Blikar áttu þó lokaorðið, því Jason Daði Svanþórsson skoraði þriðja mark heimamanna á lokamínútunni með góðri afgreiðslu framhjá Þórði, 3:1.
Strax á eftir komust Víkingar í dauðafæri inni í teig Blika þegar Anton varði frá Aroni Elís sem var í algjöru dauðafæri. Þaðan fór boltinn til Erlings sem skaut framhjá.
Lengra komust liðin ekki og vann Breiðablik mikilvægan 3:1 sigur í baráttunni um Evrópusæti.