Hópur sem væri draumur hvers þjálfara

Glódís Perla Viggósdóttir fyrir æfinguna í Düsseldorf í morgun.
Glódís Perla Viggósdóttir fyrir æfinguna í Düsseldorf í morgun. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Fyrir Glódísi Perlu Viggósdóttur, fyrirliða íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og Þýskalandsmeistara Bayern München, verður það sérstök stund þegar hún leiðir íslenska liðið inn á völlinn í Bochum á morgun þegar Þýskaland og Ísland mætast í Þjóðadeild UEFA.

Hún er í lykilhlutverki hjá Bayern München og gjörþekkir þýsku leikmennina sem ýmist eru samherjar hennar hjá Bayern, sex talsins, eða mótherjar í deildinni, aðallega hjá Wolfsburg sem á níu leikmenn í þýska hópnum.

„Við vissum að við myndum bara fá sterka mótherja í Þjóðadeildinni og fyrir mig var skemmtilegt að við skyldum dragast á móti Þýskalandi. Þær eru með þvílíka sögu og eru mikil fótboltaþjóð, það er því gaman að koma hingað og ég held að það verði mikið af fólki á vellinum á morgun og góð stemning.

Hér er alltaf mikill áhugi fyrir landsliðinu, þeim fylgir ávallt stór hópur aðdáenda og þær spila leikina út um allt Þýskaland til að ná til sem flestra. Ég á von á að það verði gríðarlega góð stemning á morgun," sagði Glódís Perla við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í morgun.

Þær geta smollið saman hvenær sem er

Þjóðverjar mæta til leiks beint úr tapleik gegn Dönum á föstudaginn, og í sumar féll liðið óvænt út í riðlakeppni HM í Eyjaálfu. Glódís sagði að eftir sem áður væri mótherji morgundagsins eitt af bestu liðum heims.

„Þær hafa ekki náð því besta út úr liðinu í síðustu leikjum sem er áhugavert því þær eru með gríðarlega sterka einstaklinga. Ef þú skoðar hópinn þeirra þá er þetta hópur sem væri draumur hvers þjálfara að fá að vera með.

En við verðum að mæta 100 prósent í þennan leik því við vitum ekki nema þær geti smollið saman á morgun, á móti okkur. Þetta gæti akkúrat verið leikurinn þar sem þær ná því besta út úr öllum, og þá eru þær gríðarlega góðar, með einstaklinga sem geta gert gríðarlega mikið af hlutum upp á eigin spýtur.

Við verðum að nálgast leikinn eins og að við séum að mæta einu besta liði heims, af því að það er staða liðsins þrátt fyrir gengið að undanförnu," sagði Glódís.

Martina Voss-Tecklenburg stýrir ekki þýska liðinu vegna veikinda en Britta Carlson aðstoðarþjálfari leysir hana af hólmi eins og gegn. Glódís kvaðst ekki átta sig á hversu mikil áhrif það hefði á liðið.

„Ég veit það ekki. Hún er í veikindaleyfi og ég átta mig ekki á því. Spurningin er hvort hún sé að stjórna þessu heiman frá sér eða hvort aðstoðarþjálfarinn sjái alveg um þetta. Fyrir okkur er það ekkert sem skiptir höfuðmáli. Við verðum að fókusa á okkur sjálfar og gera okkar upp á tíu.“

Förum í leikinn til að vinna

Hvernig leik eigum við von á í Bochum á morgun?

„Við förum inn í leikinn til að vinna hann en með raunhæfar væntingar um að þær verða töluvert meira með boltann. Okkur þarf ekki að líða illa með það. Við eigum að geta staðið þétt í okkar varnarleik, traðkað aðeins á þeim og mætt þeim harkalega, þá snýst þetta um hvað við ætlum að gera við boltann þegar við vinnum hann, hvaða svæði verða opin, og svo verða föstu leikatriðin gríðarlega mikilvæg," sagði Glódís Perla en nánar er rætt við hana á mbl.is síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert