Við erum á leið í stríð

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í gær.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í gær. Ljósmynd/KSÍ

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er nánast á heimavelli með íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta þar sem það heldur til og æfir í Düsseldorf í Þýskalandi og býr sig undir leikinn gegn Þjóðverjum í nágrannaborginni Bochum á morgun, þriðjudag.

„Já, ég er heldur betur á heimavelli. Ég bý í Leverkusen sem er um 30 mínútna akstur frá hótelinu okkar hérna í Düsseldorf en bærinn er mitt á milli Düsseldorf og Bochum. Það verður því stutt að fara heim eftir leikinn,“ sagði Karólína við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í gær.

Hún er einmitt nýbúin að leika með Leverkusen gegn Wolfsburg, sem er með níu þýskar landsliðskonur innanborðs, og er því í raun á leið gegn næstum sama liði í landsleik.

„Það verður bara stemning að mæta þeim aftur, svona hörkuliði. Eftir að hafa mætt þessum níu landsliðskonum í deildarleik fyrir nokkrum dögum kann ég kannski aðeins á þær. Þetta eru allt hörkuleikmenn og við erum á leið í stríð,“ sagði Karólína.

Þýska liðið olli miklum vonbrigðum á HM í sumar þar sem það komst ekki í sextán liða úrslit, öllum að óvörum, og tapaði síðan fyrir Dönum í Þjóðadeildinni á föstudaginn. Karólína tók undir að þetta væri mjög óvænt atburðarás hjá liðinu.

Hrikalega sterkir einstaklingar

„Ég hef ekki séð Danaleikinn enn þá en þetta ár er búið að vera erfitt hjá þeim. En þetta er upp og niður, þær eru með hörkuleikmenn þannig að maður veit ekki hvernig lið muni mæta okkur hérna í þessum leik. Þetta eru hrikalega sterkir einstaklingar, en þessi leikur snýst um hvor aðilinn sé meira lið, og ég held að við séum fullfærar um að vinna hvaða lið sem er, ef við nennum að verjast og sækjum á okkar styrkleikum. Ég held að þetta verði hörkuleikur.“

Eru þær kannski öðruvísi með félagsliðinu en með þýska landsliðinu?

„Nei, ég er ekki endilega viss um það. En það eiga öll lið einhvern tíma lélegan leik. Ég held að þær hafi ekkert verið svo slæmar gegn Dönum og það kemur fyrir hjá öllum liðum að leikir tapast. Við verðum að vera tilbúnar í allt. Þetta eru allt saman gæðaleikmenn, margar af þeim bestu í heiminum, en það er stundum erfitt fyrir stóra leikmenn að halda alltaf þeim standard. Pressan er öll á þeim og við getum vonandi nýtt okkur það.

Leikurinn leggst hrikalega vel í mig og eins og ég sagði þá erum við að fara í stríð. Þetta eru tvö ólík lið en við viljum vera liðið sem allir hata að spila gegn. Okkur líður vel með að verjast svo það er ekki vandamál, En við þurfum að halda aðeins betur í boltann og nýta vel þau færi sem við fáum því þau verða örugglega ekki mjög mörg. Aðalmálið er að koma inn í leikinn með fullt sjálfstraust,“ sagði Karólína.

Vantar hraða án Sveindísar

Sveindís Jane Jónsdóttir er ekki með vegna meiðsla og Karólína sagði að það væri að sjálfsögðu vont að vera án hennar.

„Já, það vantar smá hraða hjá okkur þegar við erum án hennar. Sveindís er auðvitað frábær leikmaður og við erum búnar að missa marga rosalega sterka leikmenn út síðasta árið. En nú þurfa bara aðrir leikmenn að stíga upp og taka meiri ábyrgð. Það er komið að okkur!“

Karólína hefur verið í röðum Bayern München í þrjú ár og er samningsbundin þar til 2026 en er nú í láni hjá Leverkusen og leikur þar allt tímabilið sem er nýhafið. Karólína segir að dvölin þar leggist mjög vel í sig en hún var í byrjunarliðinu gegn Wolfsburg í fyrstu umferð deildarinnar á dögunum.

„Já, það leggst mjög vel í mig. Ég hef fengið mjög mikið traust frá byrjun og vonandi heldur það áfram. Ég er búin að koma mér vel fyrir, fékk mjög góðar móttökur og er afar spennt fyrir þessu tímabili.

Þú þarft á heilu og góðu tímabili að halda í vetur, ekki satt, eftir erfiðan síðasta vetur þar sem þú varst lengi frá keppni vegna meiðsla?

„Já, heldur betur, ekki síst fyrir andlegu hliðina. Það tekur á að vera mikið út úr hópi vegna meiðsla og vonandi helst ég meiðslalaus í vetur og get byggt upp mína frammistöðu með Leverkusen,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert