Ingimar Torbjörnsson Stöle átti góðan leik í dag þegar KA lagði ÍBV 2:1 í neðri hluta Bestu-deildar karla í fótbolta. Ingimar er fæddur árið 2004 og kom til KA á undirbúningstímabilinu. Hann spilaði ekki mikið framan af en seinni hluta tímabilsins hefur hann sífellt komið meira við sögu.
Sæll Ingimar. Nú eru komnir þrír sigrar í röð hjá ykkur og fimm sigrar í síðustu sex deildarleikjum. Þið eruð greinilega að reyna að klára sumarið á sem bestan hátt.
„Við erum búnir að koma okkur á skrið í þessum leikjum. Við viljum sýna hvernig við eigum að spila og að við séum gott lið sem vinnur vel saman og skilar úrslitum. Mér finnst við hafa gert það.“
Í þessum neðri hluta þá var kannski ekki að miklu að keppa fyrir KA, annað en að reyna að safna sem flestum stigum og taka 7. sætið. Það var það hæsta sem þið komust. Hvernig er að koma sér í rétt hugarástand fyrir þessa leiki?
„Við vildum auðvitað vera að berjast í efri hlutanum en úr því sem komið var þá er það bara að gera vel i neðri hlutanum og vinna leiki. Það er ekkert vandamál að mótivera leikmenn í þessa leiki. Við klárum þetta bara með stíl.“
Þið eruð búnir að vera í miklum ævintýrum í sumar. Það voru sex Evrópuleikir, bikarúrslitaleikur og fleira. Þú komst nýr inn í lið KA í vor og spilaðir ekki mikið til að byrja með. Hvernig finnst þér sumarið hafa verið?
„Ég byrjaði á að spila frekar lítið, en það var bara eins og ég bjóst við. Ég vissi vel að þetta yrði erfitt og ég þyrfti að berjast fyrir mínútunum mínum. Svo bara hefur þetta komið og ég hef fengið mín tækifæri og finnst ég hafa nýtt þau vel.“
Þú ert réttfættur og að mér skilst kantmaður í grunninn. Svo eru bara oftast að spila í vinstri bakverðinum.
„Ég hef eiginlega alltaf spilað sem kantmaður og þá hægra megin. Svo þegar ég byrjaði að æfa með aðalliði Viking í Noregi þá var ég færður í bakvörðinn þegar einn úr hópnum meiddist. Þetta hefur verið svipuð saga hér. Ég hef lært heilmikið í leikjunum í sumar og á líka mikið eftir ólært. Mér finnst bakvararstaðan henta mér vel og þar get ég nýtt mína styrkleika.“
Þú ert sókndjarfur og ert oft að valda usla fram á við. Í dag tókst þér að leggja upp fyrra mark KA en þar var það bara þrjóska og seigla sem gerði gæfumuninn. Þú fékkst ekki góða sendingu en náðir að stela boltanum við endamörkin og koma honum fyrir þar sem Jóan gat ekki annað en skorað.
„Ég bað um þessa sendingu en hún hefði getað verið betri. Þegar varnarmaðurinn þeirra komst fyrir boltann og ætlaði að skýla honum aftur fyrir endaörk þá sá ég tækifæri á að ná honum. Svo var bara að finna Eddie fyrir framan markið.“
Hver er svo framtíðin? Tímabilinu hér fer að ljúka. Hvað tekur við hjá þér?
„Ég fer líklega fyrst í frí til Noregs en kem svo vonandi til baka í KA. Vonandi fæ ég að koma aftur.“
Hvernig er félagsskapurinn?
„Mér finnst hann mjög góður. Það var það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom hingað. Það eru allir mjög fínir saman og þessir eldri hafa hugsað vel um mig. Þeir taka mig með í allt, sama hvað það er. Ég hef mjög gaman af þessum félagsskap“ sagði Ingimar að lokum