Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, var að vonum sáttur eftir sigur á Breiðabliki á Hlíðarenda í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld, 4:2. Með sigrinum gulltryggði Valur sér annað sæti deildarinnar.
„Við töluðum um það fyrir úrslitakeppnina að við vildum reyna að vinna hana. Ég held nú að það sé ennþá fræðilegur möguleiki á því. Það eru tveir leikir eftir og við viljum fá öll stigin úr þeim til að enda þetta á góðum nótum.
Okkur er búið að ganga erfiðlega með Blika. Við höfum spilað tvo hörkuleiki við þá en tapað þeim báðum, þó þeir hafi verið svona nokkuð jafnir. Þetta er líka jafn leikur, mér fannst við sterkari í fyrri hálfleik en þeir í seinni. Þetta var flottur leikur hjá okkur og ég er sáttur með frammistöðuna, vinnusemina og fótboltann sem við vorum að spila, sérstaklega í fyrri hálfleik.“
Eins og Arnar segir var þetta kaflaskiptur leikur og liðin skiptust á að taka áhlaup á hvort annað. Arnar segist heilt yfir hafa verið sáttur með frammistöðuna.
„Já ég er það. Maður verður auðvitað líka að taka það inn í myndina að við erum að spila á móti flottu liði og það er ástæða fyrir því að þeir eru búnir að vera eitt besta, ef ekki besta liðið síðustu ár. Þetta lið er orðið mjög skipulagt og þeir tapa boltanum ekki oft svo maður þarf að eiga góðan dag til að vinna. Mér fannst við vera mjög flottir í dag, koma okkur í margar frábærar stöður og ná oft að opna þá. Við hefðum alveg getað gert enn betur í færunum, sérstaklega í fyrri hálfleik og svo fengum við mörg fín upphlaup í seinni hálfleik þó þeir hafi verið meira með boltann.“
Patrick Pedersen var hetja Vals í leiknum en hann skoraði þrennu. Hann byrjaði tímabilið á meiðslalistanum og hefur hægt og rólega verið að komast inn í hlutina frá því að hann sneri aftur um mitt sumar.
„Við sjáum að hann er ennþá aðeins að stinga við en hann er alltaf að verða líkari sjálfum sér. Hann skoraði þrjú mörk, hefði auðvitað getað gert fleiri því hann klikkaði á víti, en mér fannst frammistaðan hans, sérstaklega í fyrri hálfleik, rosalega flott. Hann gerði mjög vel í uppspilinu, við vorum að finna hann og hann var að taka boltann niður og halda honum vel. Þetta var heildstæð frammistaða hjá honum.
Ef ég á að taka einhvern annan út fyrir sviga fannst mér Hlynur Freyr líka rosalega flottur. Við vorum í smá vandræðum í seinni hálfleik en þegar hann kemur inn á miðjuna fannst mér það lokast. Hann átti mörg flott hlaup, var að fara með boltann, sprengja upp og þrýsta þeim niður. Það er mikil hlaupageta í honum og hann er bara frábær fótboltamaður.“
Lúkas Logi Heimisson átti frábæra innkomu hjá Val í leiknum en hann náði í vítaspyrnu eftir frábæran sprett og lagði svo upp fjórða mark liðsins. Hann hefur ekki fengið mjög margar mínútur í sumar en Arnar var ánægður með hvernig hann kom inn í þetta.
„Það býr alveg rosalega mikið í þeim strák. Stundum er það þannig með unga leikmenn að við höfum kannski ekki séð alveg nægilega mikið af því á vellinum en hann er búinn að sýna okkur í allt sumar hvað hann getur á æfingum. Þá er það bara tímaspursmál hvenær það kemur, hann var frábær þegar hann kom inná á móti KR og aftur í kvöld. Mér finnst síðustu innkomur hjá honum hafa verið mjög flottar, það hefur verið kraftur í honum og hann er bara frábær í fótbolta. Ég er virkilega ánægður fyrir hans hönd og hann á örugglega eftir að gera meira af þessu á næstunni, framtíðin er hans.“
Orri Sigurður Ómarsson byrjaði sinn fyrsta leik fyrir Val eftir erfið meiðsli en hann hefur verið að komast inn í hlutina undanfarið. Hann lék virkilega vel í vörn Vals í leiknum.
„Hann var virkilega flottur. Við vitum náttúrlega alveg hvað hann getur í fótbolta, hann er líkamlega sterkur og fljótur. Ég var nú hérna með KA-liðið fyrir einu og hálfu ári síðan eða svo þegar hann meiðist og það er nú bara þannig að það er alltaf erfitt að horfa á flotta fótboltamenn meiðast illa. Hann er bara rétt að ná sér núna, þessi krossbandaslit eru alveg hræðileg. Við vissum alveg að við værum með alvöru gæja í honum og það er bara gaman að sjá hann vera að koma aftur inn, og gera það með krafti. Hann átti flotta frammistöðu í dag.“
Valur er nú þegar farið að huga að næsta tímabili en liðið hefur sótt Gísla Laxdal Unnarsson frá ÍA, Bjarna Guðjón Brynjólfsson frá Þór og Þorstein Aron Antonsson frá Selfossi.
„Við erum búnir að vera í þessari vinnu í langan tíma, að velta því fyrir okkur hvað við þurfum. Sú vinnar í gangi en við erum á miklu betri stað núna en þegar ég tek við fyrir ári síðan. Ég held að þá hafi farið 13 leikmenn og hægt og rólega verið að taka menn inn í staðinn. Patrick var á leiðinni í aðgerð, Tryggvi Hrafn líka meiddur og Orri Sigurður kemur seint inn. Það verður allt annar bragur á okkur núna, við erum með fullan hóp og það verða ekki miklar breytingar hjá okkur. Einhverjir munu eflaust fara en það verða ekki margir.“