Pedersen tryggði Valsmönnum annað sætið

Patrick Pedersen skoraði þrennu fyrir Val og sækir hér að …
Patrick Pedersen skoraði þrennu fyrir Val og sækir hér að Viktori Erni Margeirssyni varnarmanni Breiðabliks. mbl.is/Árni Sæberg

Valur tryggði sér annað sætið í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld með sigri á Breiðabliki á Origo-vellinum á Hlíðarenda, 4:2. Leikurinn var frábær skemmtun og var greinilegt að bæði lið vildu sækja sigur.

Með sigrinum gulltryggði Valur annað sæti deildarinnar en liðið er með 52 stig, 11 stigum meira en Breiðablik þegar tvær umferðir eru eftir. Breiðablik er nú einu stigi á undan Stjörnunni sem er í fjórða sæti og fjórum stigum á undan FH sem er í því fimmta.

Valsmenn byrjuðu leikinn betur og voru meira með boltann. Patrick Pedersen fékk fínt færi við vítateigslínu eftir hornspyrnu en skot hans fór rétt framhjá markinu. Hjá Breiðabliki fékk Gísli Eyjólfsson besta færið framan af leik en hann hitti ekki markið úr teignum eftir góðan undirbúning Kristins Steindórssonar.

Fyrsta mark leiksins kom á 21. mínútu og var það vægast sagt skrautlegt. Fyrirgjöf Arons Jóhannssonar frá endalínu fór þá af bakinu á Höskuldi Gunnlaugssyni og upp í loft í átt að marki. Anton Ari Einarsson, markvörður Breiðabliks, virtist hafa allan tímann í heiminum til að grípa boltann eða slá hann yfir markið en missti boltann klaufalega inn fyrir línuna. 

Eftir markið settu Blikar þó í næsta gír og fóru að spila betur. Hægt og rólega tóku þeir öll völd á vellinum og uppskáru jöfnunarmark á 40. mínútu. Anton Logi Lúðvíksson smellti boltanum þá glæsilega á lofti utarlega úr teignum eftir að Sveinn Sigurður Jóhannesson hafði varið frábærlega frá Kristóferi Inga Kristinssyni.

Valsmenn voru þó ekki lengi að svara fyrir sig. Sveinn Sigurður spyrnti boltanum langt fram völlinn á Patrick Pedersen sem var skyndilega sloppinn einn í gegn. Pedersen lék boltanum í átt að marki áður en hann kláraði vel framhjá Antoni Ara rétt utan teigs. 

Staðan í leikhléi var því 2:1, heimamönnum í vil, í nokkuð jöfnum og fjörugum leik.

Á 55. mínútu fékk Breiðablik svo sannkallað dauðafæri til að jafna metin. Kristófer Ingi skallaði fyrirgjöf Höskuldar þvert fyrir markið þar sem Viktor Örn Margeirsson var aleinn og óvaldaður við markteigslínuna en skallaði boltann í þverslánna. Ótrúlegt að þessi öflugi skallamaður skyldi ekki skora þarna.

Blikum tókst þó að jafna á 63. mínútu en Viktor Karl Einarsson átti þá frábæra fyrirgjöf inn á miðjan teiginn eftir hornspyrnu sem Kristófer Ingi stangaði í netið. Frábærlega klárað hjá Kristóferi sem gerði allt rétt, skallaði boltann í gervigrasið og framhjá Sveini.

Eftir jöfnunarmarkið var leikurinn í járnum og bæði lið fengu ágætis sénsa til að komast yfir. Það voru svo heimamenn sem komust enn eina ferðina yfir og aftur var það Patrick Pedersen. Sigurður Egill Lárusson átti þá glæsilega fyrirgjöf eftir virkilega flotta sókn Vals og eftir að Anton Ari Einarsson hafði varið skalla varamannsins Adams Ægis Pálssonar setti Patrick Pedersen boltann í netið af stuttu færi.

Valur fékk svo gullið tækifæri til að ganga frá leiknum á 85. mínútu þegar Anton Logi felldi varamanninn Lúkas Loga Heimisson í teignum. Erlendur Eiríksson var lengi að benda á punktinn en dæmdi að lokum, sem var hárrétt ákvörðun. Á punktinn steig Patrick Pedersen en Anton Ari kom í veg fyrir það að Daninn fullkomnaði þrennu sína með því að verja slaka vítaspyrnu hans.

Pedersen þurfti þó ekki að bíða lengi eftir að ná ða klára þrennuna. Eftir frábæra sókn Vals fékk Lúkas Logi boltann við endalínuna hægra megin og lagði boltann inn á markteiginn þar sem Pedersen kláraði af stuttu færi.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Valur 4:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Valur fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka