Annar lykilmaður landsliðsins frá í október?

Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson gæti misst af landsleikjum Íslands gegn Lúxemborg og Liechtenstein í J-riðli undankeppni EM 2024 en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli í október.

Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football þar sem rætt var um Jóhann Berg en hann fór meiddur af velli á 20. mínútu í leik Burnley og United í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn síðasta.

Ísland mætir Lúxemborg hinn 13. október og svo Liechtenstein hinn 16. október en Hörður Björgvin Magnússon verður einnig fjarverandi í landsleikjunum eftir að hann sleit krossband á dögunum.

„Hann verður bara ekki með,“ sagði Hrafnkell Freyr meðal annars þegar rætt var um íslenska landsliðsmanninn sem á að baki 86 A-landsleiki en hann og Hrafnkell eru æskuvinir.

Gylfi Þór Sigurðsson gæti hins vegar snúið aftur í landsliðið eftir langa fjarveru en hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert