Gamla ljósmyndin: Fögnuður Víkinga

Morgunblaðið/KÖE

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Víkingur varð á dögunum Íslandsmeistari karla í knattspyrnu í sjöunda sinn eða nokkru áður en mótinu lýkur.

Fram til ársins 1981 hafði liðið einungis tvívegis unnið Íslandsmótið og hafði það ekki gerst síðan 1924. 

Víkingur sigraði þá tvö ár í röð 1981 og 1982. Meðfylgjandi mynd er tekin í búningsklefa Víkings þegar liðsmenn og stuðningsmenn fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum haustið 1982 undir stjórn Youri Sedov. 

Frá vinstri: Magnús Þorvaldsson sem varð leikjahæstur Víkinga í efstu deild, Ragnar Gíslason, Jón Otti Jónsson varamarkvörður, Þórður Marelsson (faðir Halldórs Jóns Sigurðar Þórðarsonar leikmanns ÍBV), Jóhann Þorvarðarson, Ögmundur Kristinsson markvörður og Jóhannes Bárðarson. Í baksýn virðist vera Gylfi Rútsson sem kom inn í liðið tveimur árum síðar. 

Fögnuð Víkinga haustið 1982 fangaði Kristján Örn Einarsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið á fyrri hluta níunda áratugarins. 

Á þessum tíma var umgjörðin í kringum Íslandsmótin í boltaíþróttum ekki jafn stíf og hún er í dag og því gátu ljósmyndarar myndað gleðina í búningsherbergjum. 

Á myndinni má sjá ýmsa unga stuðningsmenn Víkings sem tóku þátt í fögnuðinum og mbl.is lætur öðrum eftir að bera kennsl á ungmennin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert