Svo veit maður ekki neitt

Gunnleifur Gunnleifsson þjálfari Blikakvenna.
Gunnleifur Gunnleifsson þjálfari Blikakvenna. mbl.is/Kristín Hallgrímsdóttir

„Við vorum alveg í basli eins og fótboltaleikir eru,“ sagði Gunnleifur Vignir Gunnleifsson þjálfari kvennaliðs Breiðablik eftir 3:1 sigur á FH í dag þegar liðin mættust í Kópavogi í næst síðustu umferð í efri hluta efstu deildar kvenna í fótbolta, sem kemur Blikakonum í þá stöðu að bera sjálfar ábyrgð á að komast í Meistaradeildina.   

Gestirnir úr Hafnarfirð voru þó sýnd veiði en ekki gefin.   „Maður veit alveg hvernig þetta er í fótboltanum, maður setur eitthvað upp, svo gera hinir eitthvað allt annað og svo veit maður  ekki neitt Mér finnst FH-liðið mjög spennandi og skemmtilegt lið og pottþétt að það myndi gefa okkur alvöruleik.  Sannarlega gaman að horfa á þetta lið og margt skemmtilegt hjá þeim, svo við bjuggumst alveg við að lenda í veseni gegn þeim en mér finnst karakter í mínum stelpum, bæði þegar við komumst yfir og fáum svo á okkur jöfnunarmark þá setjum við pressu á hitt liðið svo ég er stoltur af stelpunum.   Við erum með mikið af gæða leikmönnum í liði okkar og reynslumikla.“ 

Ætla ekki að þykjast vera einhver spaði

Breiðablik er í næst efsta sæti deildarinnar með 40 stig.  Bara Stjarnan gæti skemmt partýið með tveimur stigum á eftir Blikum og ein umferð eftir þegar Breiðablik mætir Val og Stjarnan tekur á móti Þrótti. „Við höfum að sjálfsögðu spáð mikið í hvort við náum í Meistaradeildina, ég ætla ekki að þykjast vera einhver spaði og vera ekkert að spá í það enda er það að sjálfsögðu markmiðið hjá okkur en sjáum til hvernig þetta endar allt saman.  Við eigum svo eftir leik við Íslandsmeistarana um næstu helgi og það er þá alveg hvernig þessi dagur endar, hvort sem við tryggjum okkur sæti í Meistaradeildinni eða ekki, þá gerum við eins og alvöru fótboltalið gera – að klára mótið af krafti og gerum okkar besta til að ná góðum úrslitum á móti Val,“ bætti þjálfarinn við.

Þarf ekkert að hvetja okkur sérstaklega fyrir lokaleikinn

Clara Sigurðardóttir átti fínan leik á miðjunni hjá Blikum og innsiglaði 3:1 sigur Breiðablik með því að skora þriðja markið.  „Ég segi allt frábært, mikill liðsheildarbragur á þessu hjá okkur og ég er bara sátt við mitt lið og minn hóp.  Við fáum mark í andlitið þegar við erum einu marki yfir en það sýnir styrkleika okkar að komast aftur inní leikinn, við hættum ekkert sem sýnir hvað við getum og við héldum okkar striki,“  sagði Clara eftir leikinn og enn hugur í henni.  

„Okkur þykir möguleiki á að komast í Meistaradeildina góð gulrót.  Íslandsmeistaratitillinn er farinn og við gerum okkar allra besta til að enda eins hátt á töflunni og við getum.  Við ætlum að vinna næsta leik, það er á hreinu og það þarf ekkert að hvetja liðið neitt sérstaklega fyrir þann leik. Við byrjum að undirbúa hann á morgun, höldum okkar liðsheild og þá eru okkur allir vegir færir,“ bætti Clara við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka