Ótrúlegur sigur KR á Blikum

Kristinn Steindórsson í baráttunni við Ægi Jarl Jónasson í dag.
Kristinn Steindórsson í baráttunni við Ægi Jarl Jónasson í dag. mbl.is/Óttar

KR lagði Breiðablik 4:3 í ótrúlegum leik á Meistaravöllum í næst síðustu umferð efri hluta Bestu deildar karla í dag. Þannig er Breiðablik ekki enn búið að tryggja sér Evrópusæti að ári. 

KR-ingar byrjuðu betur og skoruðu mark sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu strax á 8. mínútu. Tveimur mínútum síðar geystist Jason Daði Svanþórsson upp völlinn og lagði boltann til hægri á Kristinn sem kom honum fyrir mark KR. KR-ingar virtust vera að koma boltanum frá en hreinsunin var slök og Jason fljótastur að átta sig. Hann náði að slæma fætinum í boltann og einhvern veginn að þröngva honum yfir línuna.

KR-ingar virtust aðeins slegnir út af laginu eftir markið og Blikar gengu á lagið. Annað markið leit dagsins ljós á 25. mínútu . Jason Daði átti flotta seindingu inn fyrir vörn KR, Klæmint tók vel á móti boltanum, fór fram hjá Aroni Snæ og lagði boltann í netið.

Átta mínútum síðar var komið að KR. Sigurður Bjartur gerði þá vel í að koma boltanum fyrir á Benóný Breka sem kláraði af yfirvegun af stuttu færi.

Það var svo undir lok fyrri hálfleiks sem Kristinn Steindórson slapp í gegn og gerði engin mistök. Breiðablik leiddi 3:1 í leikhléi.

KR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og á 53. mínútu hafði Kennie Chopart betur í návígi úti á hægri vængnum. Hann kom boltanum fram á Benóný Breka sem átti flotta fyrirgjöf á Sigurð Bjart sem skoraði af stutu færi.

Seinni hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu en KR-ingar voru heilt yfir sterkari. Ekki voru fleiri mörk skoruð í venjulegum leiktíma en fimm mínútum var bætt við og það var Benóný Breki sem skoraði harðfylgismark eftir klafs í upphafi viðbótartímans.

Það var svo Luke Rae sem kom inná sem varamaður á 80. mínútu sem rak smiðshöggið á flottan leik heimamanna með frábæru marki mínútu síðar. Hann tók boltann á lofti og smellti honum í nærhornið! Frábært mark og KR tók stigin þrjú.

Mbl.is var á Meistaravöllum og færði ykkur það helsta í beinni textalýsingu.

KR 4:3 Breiðablik opna loka
90. mín. KR fær hornspyrnu Ekkert verður úr. Fimm mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert