Eiginlega bara sár og dapur

Höskuldur Gunnlaugsson með boltann í vítateig Úkraínumannanna í leiknum í …
Höskuldur Gunnlaugsson með boltann í vítateig Úkraínumannanna í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Maður er eiginlega bara sár og dapur,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks við mbl.is eftir ósigurinn gegn Zorya frá Úkraínu, 0:1, á Laugardalsvellinum í Sambandsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Blikar áttu virkilega góðan síðari hálfleik og voru óheppnir að krækja ekki í að minnsta kosti eitt stig en markvörður Zorya varði þrívegis glæsilega í síðari hálfleiknum.

„Það er erfitt að vera reiður og pirraður því mér fannst frammistaðan vera góð. Við vorum beittir, sérstaklega í seinni hálfleik, við ógnuðum vel og gerðum allt sem í okkar valdi stóð nema drulla tuðrunni alveg inn. Hann varði helvíti vel í þessi þrjú skipti,“ sagði Höskuldur.

Var nánast byrjaður að fagna

Eitt af þessum þremur skiptum var hörkuskalli frá Höskuldi sem Mykyta Tur­balev­skyi varði á ótrúlegan hátt.

„Já, ég ætlaði ekki að trúa þessu. Ég sá boltann inni og var nánast byrjaður að fagna markinu,“ sagði Höskuldur um þetta atvik á 80. mínútu leiksins.

Sigurmark Ihors Horbachs fyrir Zorya kom í kjölfar hornspyrnu á 35. mínútu og Höskuldur sagði að það hefði vel mátt koma í veg fyrir það.

„Já, þetta var full auðvelt fyrir hann, en þeir gerðu þetta svo sem ágætlega. Hann náði að taka sér stöðu og stíga Anton aðeins út. En burtséð frá því fannst mér við svara þessu vel. Við vorum með frumkvæðið og stjórn á leiknum eiginlega allan tímann. Síðustu tíu mínúturnar fengu þeir einhver upphlaup, skiljanlega. Við vorum að reyna að jafna.

Maður er alveg stoltur af liðinu, hugarfarinu og fótboltanum sem við spiluðum. Við tókum áhættu, höfðum engu að tapa og reyndum að sækja þetta mark en inn vildi boltinn ekki. Mér fannst við hafa gert nóg til að fá eitthvað út úr leiknum. Þess vegna er þetta ekstra sárt,“ sagði Höskuldur.

Blikar eru án stiga eftir tvo leiki, og tvo nauma eins marks ósigra gegn Maccabi Tel Aviv og Zorya.

Höskuldur Gunnlaugsson og Denys Nahnoinyi í leiknum í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson og Denys Nahnoinyi í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þegar maður horfir til baka yfir þessa tvo leiki þá hefðum við alveg getað verið með fjögur stig. En það þýðir samt ekkert að vera að ofmeta sig. Við erum með núll stig en tökum með okkur frammistöðuna. Setjum kassann út og trúum því að við eigum erindi í þessa keppni,“ sagði Höskuldur.

Völlurinn var flottur

Breiðablik spilar heimaleiki sína í keppninni á Laugardalsvellinum þar sem Kópavogsvöllur er ekki löglegur í riðlakeppni Evrópu. Höskuldur kvaðst ánægður með völlinn.

„Við vorum 65 prósent með boltann í leiknum, spilið var gott, boltinn gekk hratt og vel og við sköpuðum okkur fullt af færum. Völlurinn var flottur í dag og það var gaman að spila á honum. Það er aðeins öðruvísi að spila á þjóðarleikvanginum en maður hafnar því ekki. Þetta er heimavöllurinn okkar núna og við ætlum okkur sex stig úr heimaleikjunum tveimur á honum í nóvember,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka