Við erum ekki þannig

Jason Daði Svanþórsson í einu af færum Breiðabliks í leiknum …
Jason Daði Svanþórsson í einu af færum Breiðabliks í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Miðað þann stað sem við erum á, í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar, þá get ég ekki leyft mér að vera stoltur,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, við mbl.is eftir ósigurinn gegn Zorya frá Úkraínu, 0:1, á Laugardalsvellinum í kvöld.

Spurningin sem hann fékk var á þá leið hvort hann væri frekar stoltur eða svekktur eftir ósigur Breiðabliks gegn Zorya en Blikarnir máttu sætta sig við að ganga stigalausir af Laugardalsvellinum þrátt fyrir virkilega góða frammistöðu í leiknum.

„Mér fannst við eiga að taka meira út úr þessum leik og þá situr svekkelsið eftir. Zorya er gott lið en þegar þú ert kominn á þennan stað, þá er þetta hætt að snúast um að við höfum verið flottir á milli teiganna, við hefðum spilað fallega og verið hugrakkir og svona.

Auðvitað viltu halda í það sem þú ert, og halda í sjálfsmyndina þína, en það að vera í riðlakeppni snýst fyrst og fremst um að taka sénsana þegar þeir koma. Nýta færin þegar möguleikarnir eru fyrir hendi, og við gerðum það ekki í dag. Ná í úrslit þegar við getum náð í úrslit. Við gerðum það ekki í dag, og akkúrat núna er ég svekktur,“ sagði Óskar Hrafn.

Líka stoltur af mörgu

En hann kvaðst vissulega geta verið stoltur á margan hátt af liðinu.

„Ég er stoltur af mörgum hlutum, stoltur af því hvernig við leystum marga hluti, hvernig við leystum þétta miðblokkina þeirra og náðum að búa til helling af góðum stöðum. Hvernig pressan okkar var á löngum köflum.

En svo er ég svekktur með gæðin á síðasta þriðjungi vallarins. Ég er svekktur yfir ákvarðanatökunni þegar við spiluðum erfiðum boltum með átta til níu menn í sókn. Auðvitað er sárt að ná ekki alla vega í stig.

En ég er hins vegar stoltur af liðinu fyrir dugnaðinn, vinnsluna og kraftinn. Fyrir karakterinn. Það var rosalega margt í þessum leik sem rímar við það sem við stöndum fyrir. Við stöndum fyrir það að vera opnir, reyna að spila sóknarleik og reyna að búa til færi. Fórnarkostnaðurinn er stundum sá að þú ert dálítið opinn. Þá reynir á að þú náir að velja rétt, að áhættustýringin sé góð. Stundum er hún bara ekkert sérstaklega góð og þá lítum við ekki sérstaklega vel út.

En ég myndi alltaf kjósa það frekar að líta illa út þrisvar til fjórum sinnum en ná samt að stjórna leiknum, færa boltann vel og opna mótherjana, frekar en að vera þéttir allan tímann og gefa fá færi á sér. Þannig erum við einfaldlega ekki.

Þó að margir hafi gefið út að það sé rétta leiðin, það sé handritið sem menn eigi að fylgja í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar, þá erum við ekki þannig. Ef við ætluðum að spila þannig þá værum við bara léleg eftirlíking af einhverju öðru liði,“ sagði Óskar Hrafn.

Hættið að reyna að spila inn í markið

Talsverður munur var á spilamennsku Blika í fyrri og seinni hálfleik. Í þeim fyrri áttu þeir fullt af góðum sóknum en gekk illa að binda endahnútinn á þær. Í þeim seinni voru þeir beinskeyttari og þá létu færin ekki á sér standa. Óskar sagðist aðspurður ekki hafa sagt mikið við sína menn í hálfleik en þó gefið þeim skýr skilaboð.

„Ég breytti í raun engu nema ég bað menn í fyrsta lagi vinsamlegast um að hætta að reyna að leita að hinu fullkomna skotfæri, og í öðru lagi hætta að reyna að spila inn í markið. Þetta var einhvern veginn þannig. Það var ekkert færi, enginn möguleiki var nógu góður, menn voru alltaf að leita að næsta manni. Svo enda menn bara einhvers staðar úti í skurði eða missa boltann og fá á sig skyndisókn.

Ég bað menn bara um að vera fljótari, vera agressífari, vera beinskeyttari þegar þeir kæmust á síðasta þriðjung. Það var stóri munurinn á hálfleikjunum og þeir tóku mig á orðinu. Voru beinskeyttari og það skilaði sér í fleiri skotum og hættulegri færum,“ sagði Óskar Hrafn.

Blikar eru án stiga eftir tvo nauma tapleiki og Óskar kvaðst horfa á það með blendnum tilfinningum.

„Maður getur alveg verið stoltur af því að finnast við hafa átt að fá eitthvað út úr báðum leikjunum. Það er kannski pínulítil frekja með Maccabi-leikinn, en þar var maður samt alltaf að bíða eftir síðustu sókninni, við áttum okkar möguleika þegar þeir voru orðnir þreyttir. Það sama var uppi á teningunum í kvöld, Zoryamenn voru orðnir þreyttir, þeir hefðu ekki lifað af tíu mínútur í viðbót,“ sagði Óskar.

Föllum eflaust nokkrum sinnum á sverðið

Næstu tveir leikir Blikanna í keppninni eru gegn Gent frá Belgíu, fyrst á útivelli og síðan á Laugardalsvellinum.

„Nú erum við að fara í tvo erfiða leiki á móti Gent en þar þurfum við líka að passa að ætla ekki bara að verja eitthvað og passa upp á að líta ekki illa út. Þegar þú ert kominn á þetta svið þá muntu líta illa út á einhverjum augnablikum. Við verðum bara að þola það að líta illa út, svo framarlega sem við erum við sjálfir.

Þú getur ekki farið út til Belgíu, reynt að múra fyrir markið og reyna að sleppa sem best frá leiknum. Við verðum að þora að halda boltanum, verðum að reyna að sjá hversu langt við getum tekið þá á okkar leik. Við munum eflaust falla nokkrum sinnum á sverðið í þeim leik en ef þú veist hvað þú átt að gera og ert trúr þínu er auðveldara að standa upp,“ sagði Óskar Hrafn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert