Breiðablik tryggði sér Meistaradeildarsætið

Katrín Ásbjörnsdóttir skorar fyrir Blika á 52. mínútu leiksins í …
Katrín Ásbjörnsdóttir skorar fyrir Blika á 52. mínútu leiksins í kvöld og kemur þeim yfir. Málfríður Anna Eiríksdóttir nær ekki að stöðva hana. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik gulltryggði sér annað sæti Bestu deildar kvenna í fótbolta með 1:0-útisigri á Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda í kvöld. Valur endaði í toppsæti deildarinnar með 49 stig og Breiðablik í öðru sæti með 43 stig. Fer Breiðablik því með Val í Meistaradeildina á næstu leiktíð.

Lítið var um opin færi í fyrri hálfleik, en Valskonur voru þó sterkari aðilinn. Málfríður Anna Eiríksdóttir og Lára Kristín Pedersen áttu báðar fínar tilraunir rétt utan teigs en í bæði skiptin var Telma Ívarsdóttir vel á verði í marki Breiðabliks.

Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir fékk besta færi fyrri hálfleiks þegar hún náði skoti innan teigs, en Telma var vel staðsett og varði aftur vel. Hinum megin hafði Fanney Inga Birkisdóttir lítið að gera í Valsmarkinu og var staðan í leikhléi því markalaus.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn með látum því Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði stórglæsilegt fyrsta mark leiksins á 52. mínútu þegar hún skilaði boltanum stórglæsilega upp í vinkilinn fjær af 20 metra færi.

Markið gaf Breiðabliki aukinn kraft og var Kópavogsliðið sterkara stærstan hluta seinni hálfleiks. Katrín fékk tvö úrvalsfæri til að bæta við öðru marki, en Fanney Inga varði gríðarlega vel í bæði skiptin.

Hún varði svo einnig vel frá Birtu Georgsdóttur og sá til þess að staðan var enn 1:0. Hinum megin tókst Val illa að skapa sér gott færi og fögnuðu Blikar því sætum sigri.  

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Valur 0:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Breiðablik fær hornspyrnu Tíminn að renna út. Blikarnir að sigla sætum sigri í höfn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka