„Ég er ekkert að fylgjast með hvað ég hef spilað marga leiki, maður er orðinn svo gamall, verð fertug á næsta ári, þeir eru allir eins, sagði Málfríður Erna Sigurðardóttir miðvörður Stjörnunnar sem lék sinn 300. leik í efstu deild í kvöld þegar Garðbæingar lutu í lægra haldi fyrir Þrótti, 0:1, í síðasta leik Bestu deildar kvenna í fótbolta.
„Ég veit ekkert hvernig er talið, heyrði um daginn að ég hefði spilað fimm hundruð leiki en það er líklega allir leikir í öllum flokkum,“ sagði Málfríður Erna, sem er 39 ára og ekki viss um hvort hún verði til taks næsta sumar.
„Ég veit ekki hvort ég verði áfram á næsta tímabili, tek bara eitt ár í einu og miða þá við hvernig líkaminn er og hvað mig langar að gera. Ég sé bara til,“ bætti hún við og sagði tapið gegn Þrótti í kvöld vera sögu liðsins í hnotskurn.
„Ég hefði viljað vinna þennan leik, það hefði verið gaman en þar sem Breiðablik vann Val þá skipti þessi leikur ekki máli. Við hugsuðum bara um okkur og okkar leik en þetta gekk ekki. Mér fannst við vera betri í dag en náðum ekki að skora, sem er einmitt sagan okkar í sumar því náum ekki að gera út um leikina. Þetta hefur svona í allt sumar – alltaf stöngin og út en ekki inn – og við alltaf með færi inni í teig,“ bætti hún við.