Birnir Snær Ingason úr Víkingi var kjörinn besti leikmaðurinn í Bestu deild karla í fótbolta árið 2023 af leikmönnum deildarinnar.
Birnir tók við verðlaunum sínum rétt áður en leikur Víkings og Vals í lokaumferð deildarinnar hófst á Hlíðarenda núna klukkan 14.
Hann er í hópi markahæstu manna deildarinnar með 12 mörk í 25 leikjum Víkinga en tekur ekki þátt í leiknum í dag vegna meiðsla.
KSÍ tilkynnti í gær að þeir fjórir sem hefðu orðið efstir í kosningunni og kæmu því til greina í kjörinu væru Birnir Snær, samherji hans Pablo Punyed og Stjörnumennirnir Eggert Aron Guðmundsson og Emil Atlason.
Leikmenn efstu deildar karla hafa kosið besta og efnilegasta leikmanninn samfleytt frá árinu 1984 en þá var Bjarni Sigurðsson markvörður ÍA kjörinn besti leikmaðurinn og Guðni Bergsson varnarmaður úr Val sá efnilegasti.