Rúnar ósáttur: Engin útskýring eða neitt

Rúnar Alex Rúnarsson ræðir við mbl.is í dag.
Rúnar Alex Rúnarsson ræðir við mbl.is í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það er mjög gott að búa í Wales. Við fjölskyldan erum mjög ánægð og búin að koma okkur vel fyrir. Þetta er mjög skemmtileg borg,“ sagði Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í fótbolta, í samtali við mbl.is.

Rúnar er að láni hjá velska liðinu Cardiff frá Arsenal út leiktíðina, en Cardiff leikur í ensku B-deildinni. Rúnar færði sig yfir til Wales til að fá að spila, en hann hefur aðeins spilað þrjá leiki á tímabilinu til þessa, einn þeirra í deildinni. Hann er ekki sáttur við þá stöðu.

„Maður vill fá að spila og ég fór í þetta félag á þeim forsendum að ég myndi spila. Markvörðurinn spilaði vel áður en ég kom og hélt því svo áfram eftir að ég kom. Ég er búinn að fá þrjá leiki og þjálfarinn hefur ekki viljað breyta til frambúðar,“ sagði Rúnar.

Rúnar stóð á milli stanganna í deildarleik gegn Ipswich 2. september en hefur þurft að verma bekkinn í deildarleikjum síðan þá.

Rúnar Alex Rúnarsson hefur lítið fengið að spila hjá Cardiff.
Rúnar Alex Rúnarsson hefur lítið fengið að spila hjá Cardiff. Ljósmynd/Cardiff

„Það var engin útskýring eða neitt. Svo vann liðið næstu fjóru leiki, svo það var erfitt fyrir mig að fara að rífa einhvern kjaft eða spyrja spurninga þegar liðið tekur tólf stig af tólf mögulegum. Þetta er svolítið súrt.

Ég spilaði vel í þessum tveimur leikjum sem ég fékk fyrir landsleikjapásuna síðustu. Svo stóð ég mig ágætlega með landsliðinu og ég hélt ég væri kominn með meðbyr en svo var ég settur á bekkinn án útskýringa. Svona er boltinn,“ sagði hann.

Rúnar lék síðast í deildabikarleik gegn Blackburn, sem tapaðist 2:5. Arnór Sigurðsson skoraði eitt marka Blackburn, en Rúnar kom fram hefndum þegar hann varði víti frá Skagamanninum síðar í leiknum.

„Við vorum sammála um að þetta hafi verið jafntefli á milli okkar. Ég ver þetta víti og Arnór skorar,“ sagði Rúnar léttur og hélt áfram: „En auðvitað var erfitt að fá á sig fimm mörk. En það er ekki bara undir mér komið hvernig úrslitin voru, þetta voru ellefu á móti ellefu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert