Svava fór úr mjaðmarlið

Svava Rós Guðmundsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Svava Rós Guðmundsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Eggert Jóhannesson

Tvær breytingar voru gerðar á landsliðshópi kvenna í knattspyrnu sem Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari tilkynnti í dag. Á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ greindi Þorsteinn frá því að Svava Rós Guðmundsdóttir væri meidd.

„Svava Rós meiddi sig um daginn og verður ekki með okkur. Alexandra [Jóhannsdóttir] kemur inn fyrir hana,“ sagði hann.

Spurður hvers eðlis meiðsli Svövu Rósar, sem er sóknarmaður Benfica, væru sagði Þorsteinn:

„Mér skilst að hún hafi farið úr mjaðmarlið og hrokkið í hann aftur. Þetta er svolítið óráðið skilst mér.

Það er ekki komið í ljós hversu langur tími þetta verður, hvort hún þurfi að fara í aðgerð eða ekki.

Mér skilst að ákvörðun um framhaldið verði tekin eftir að hún fer í myndatöku, ég held að það sé einhvern tímann í næstu viku.“

Alexandra búin að jafna sig af meiðslum

Alexandra, sem er miðjumaður Fiorentina, missti af síðasta landsleikjaglugga vegna meiðsla en er nú fyllilega klár í slaginn.

„Já, Alexandra er búin að vera alveg á fullu núna síðustu vikur, bara frá því í landsleikjaglugganum síðast. Hún spilar í kvöld, hún byrjar í kvöld. Þannig að ég kalla hana bara inn út af því,“ útskýrði Þorsteinn.

Fanney spilar með U19

Aldís Guðlaugsdóttir, markvörður FH, kemur þá inn í liðið í stað Fanneyjar Ingu Birkisdóttur.

„Fanney kemur til með að spila með U19 í undankeppni fyrir Evrópumótið og Aldís kemur inn fyrir hana.

Ég tel það mikilvægt að Fanney spili líka, fái landsleiki. Ég vil að hún spili í staðinn fyrir að hún fari í annan glugga og hugsanlega spili ekki neitt,“ sagði Þorsteinn um þá breytingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka