Knattspyrnu- og landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir er að gefa út barnabók en bókin kemur út hinn 28. október og ber heitið Sveindís Jane – saga af stelpu í fótbolta.
Sveindís, sem er 22 ára gömul, er uppalin hjá Keflavík en leikur í dag með þýska stórliðinu Wolfsburg.
Hún varð Þýskalandsmeistari með liðinu í fyrra og þá lék hún til úrslita í Meistaradeildinni síðasta vor þegar Wolfsburg tapaði fyrir Barcelona í úrslitaleik í Eindhoven í Hollandi en leiknum lauk með 3:2-sigri Barcelona.
„Það er einlæg von mín að bókin sem ég skrifaði ásamt útgefanda mínum verði börnum hvatning til að láta að sér kveða í íþróttum,“ segir Sveindísi í fréttatilkynningu.
„Ég sem dæmi hóf ekki að æfa fótbolta fyrr en ég var níu ára. Saga mín í fótboltanum er saga stelpu af Reykjanesi sem var send í markið þar sem enginn hafði trú á mér úti á vellinum. Það átti eftir að breytast og fljótlega eignaðist ég draum um að ná langt í heimi knattspyrnunnar.
Nú er ég á góðri leið, spila með einu sterkasta félagsliði heims, hef staðið í víglínu íslenska landsliðsins og fram undan eru fleiri ævintýri. Bókin segir sögu mína með skáldlegu ívafi, en aðalatriðin eru til staðar og vonandi veitir bókin lesendum bæði gleði og innblástur,“ segir Sveindís enn fremur í tilkynningunni.