Ólafur Kristjánsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Þróttar í fótbolta og gert þriggja ára samning við knattspyrnudeild félagsins.
Ólafur tekur við starfinu af Nik Chamberlain sem yfirgaf félagið á dögunum til að taka við Breiðabliki.
Ólafur hefur stýrt karlaliðum Fram, Breiðabliks, Nordsjælland, Randers, Esbjerg og FH en hefur aldrei áður þjálfað kvennalið. Hann starfaði síðast sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki.
„Ráðning Ólafs H. Kristjánssonar sýnir þann metnað sem einkennir allt starf knattspyrnudeildar Þróttar þessa dagana. Með henni stígum við stórt skref og sköpum forsendur til að halda áfram að bæta árangur kvennaliðsins ár frá ári,“ er haft eftir Kristjáni Kristjánssyni formanni knattspyrnudeildar Þróttar.
,,Ég er mjög spenntur að taka við kvennaliði Þróttar sem verið hefur í fremstu röð í íslenskum kvennafótbolta undanfarin ár. Framtíðarsýn Þróttara hefur heillað mig og ég trúi því að við getum gert liðið enn betra en það er í dag. Ég tek við góðu búi og lít á það sem mjög verðugt verkefni að halda áfram þeirri góðu vinnu sem unnin hefur verið í Þrótti,“ var haft eftir Ólafi.