Rúnar Kristinsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Fram í knattspyrnu. Skrifaði hann undir þriggja ára samning, sem gildir út tímabilið 2026.
Þetta tilkynnti félagið á blaðamannafundi í íþróttamiðstöðinni í Úlfarsárdal núna rétt í þessu.
Rúnar, sem er 54 ára gamall, tekur við liðinu af Ragnari Sigurðssyni sem stýrði Frömurum út síðasta keppnistímabil eftir að Jón Sveinsson var rekinn undir lok júlí.
Rúnar lét af störfum sem þjálfari KR eftir tímabilið eftir að hafa stýrt liðinu samfleytt frá árinu 2017 og gerði hann liðið að Íslandsmeisturum árið 2019.
Hann hefur einnig stýrt Lilleström í Noregi og Lokeren í Belgíu á þjálfaraferlinum en hann stýrði KR einnig á árunum 2010 til 2014 og gerði liðið þá tvívegis að Íslandsmeisturum og þrívegis að bikarmeisturum.
Rúnar á að baki 104 A-landsleiki og er næstleikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi á eftir Birki Bjarnasyni.