Skoða öll tilboð sem koma á borðið

Sandra María Jessen er opin fyrir nýrri áskorun.
Sandra María Jessen er opin fyrir nýrri áskorun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sandra María Jessen, landsliðskona í fótbolta, er opin fyrir því að skipta um félag fyrir næsta tímabil. Hún hefur síðustu tvö tímabil leikið með Þór/KA á heimaslóðum á Akureyri.

Sandra hefur aldrei leikið fyrir annað félag á Íslandi, en lék með Leverkusen í Þýskalandi fyrst árið 2016 og svo aftur á árunum 2019 til 2021. Þess á milli lék hún með Slavia Prag í Tékklandi árið 2018.

„Það var klárlega margt jákvætt, ef maður horfir á tímabilið eftir á. Það voru góð skref fram á við fyrir liðið og mig persónulega. Að sama skapi er maður líka svekktur og maður horfir á leiki sem maður vildi fá meira úr. Heilt yfir er maður samt nokkuð sáttur,“ sagði Sandra við mbl.is um nýliðið tímabil með Þór/KA, þar sem liðið endaði í fimmta sæti Bestu deildarinnar.

Sandra María Jessen með dóttur sinni.
Sandra María Jessen með dóttur sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sandra hefur leikið mjög vel með Þór/KA að undanförnu og vakið athygli annarra félaga.  

„Ég held öllu opnu og ég skoða allt sem er í boði. Mér líður rosalega vel á Akureyri, bæði þegar kemur að fótboltanum og fjölskyldunni. Ég er með kærasta og barn sem eru líka inni í myndinni þegar ég ákveð hvar ég ætla að spila.

Ef ég er alveg heiðarleg þá skoða ég öll tilboð og það sem kemur á borðið. Ég velti svo fyrir mér kostum og göllum hvers tilboðs. Það er mikið sem ég þarf að skoða áður en ég tek þessa ákvörðun. Auðvitað væri maður til í að geta verið eigingjarn og hugsa bara um sig sjálfan og fótboltaferilinn, en heildarmyndin er stærri hjá mér,“ sagði Sandra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert