Breiðablik mátti þola stórt tap, 5:0, fyrir Gent í þriðja leik liðsins í Sambandsdeild karla í knattspyrnu í Belgíu í dag.
Breiðablik er í neðsta sæti riðilsins án stiga eftir þrjá leiki en Gent er á toppnum með sjö.
Á áttundu mínútu fékk miðvörðurinn Viktor Örn Margeirsson gott færi til þess að koma Blikum yfir en skot hans fór framhjá.
Tveimur mínútum síðari kom Omri Gandelman Gent yfir með skallamarki eftir hornspyrnu þar sem hann var furðulega einn og ódekkaður.
Fimm mínútum síðar komust heimamenn í 2:0 en þar að verki var framherjinn Hugo Cuypers sem skallaði boltann einnig í netið eftir sendingu frá Gandelman.
Cuypres var svo aftur á ferðinni á 19. mínútu er hann kom Gent í 3:0 með hnitmiðuðu skoti eftir sendingu frá Tarik Tissoudali.
Tissoudali bætti síðan við fjórða marki Gent undir lok fyrri hálfleiksins þegar hann vann boltann af Jasoni Daða Svanþórssyni og skoraði gott mark, 4:0, sem voru hálfleikstölur.
Þrátt fyrir ágætis frammistöðu Blika í síðari hálfleik bættu Gent-menn við fimmta markinu á 69. mínútu. Var þar að verkum varamaðurinn Gift Orban sem klobbaði Anton Ara Einarsson, markvörð Blika.
Undir lok leiks krækti fyrirliði Blika Höskuldur Gunnlaugsson í vítaspyrnu. Hann steig sjálfur á punktinn en Davy Roef markvörður las hann og varði vítið í stöngina.
Breiðablik mæti aftur Gent í næsta leik, nú á Laugardalsvelli 9. nóvember.