Knattspyrnumaðurinn Kristinn Jónsson hefur yfirgefið herbúðir KR eftir sex ár hjá félaginu. Hinn 33 ára gamli Kristinn, sem er bakvörður, tilkynnti tíðindin á Instagram í kvöld.
„Eftir 6 frábær ár í KR hef ég tekið þá ákvörðun að breyta til. Ég hef gefið allt í verkefnið og er gífurlega stoltur af þessum tíma í KR-treyjunni,“ skrifaði Kristinn m.a.
Kristinn er uppalinn hjá Breiðabliki og lék með liðinu til ársins 2015 er hann hélt í atvinnumennsku og lék með Brommapojkarna í Svíþjóð og norsku liðunum Sarpsborg og Sogndal.
Hann kom aftur heim í Breiðablik árið 2017, en skipti yfir til KR árið eftir. Hann hefur alls leikið 268 leiki í efstu deild hér á landi og skorað í þeim 18 mörk en í lokaumferð Bestu deildarinnar í haust lék hann sinn 300. deildaleik á ferlinum, heima og erlendis.