„Ég er mjög sáttur við frammistöðuna, hún var heilt yfir gríðarlega góð,“ sagði Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks við mbl.is eftir nauman ósigur gegn belgíska liðinu Gent, 2:3, í Sambandsdeild karla í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld.
„Leikplanið gekk vel upp, við pressuðum þá framar og settum þá í vandræði. Þeir refsuðu okkur samt fyrir fyrstu mistökin sem við gerðum og þetta leit því vissulega ekki vel út eftir sex mínútur en við brugðumst mjög vel við því,“ sagði Halldór.
Gift Orban kom Gent yfir á 6. mínútu en Jason Daði Svanþórsson svaraði með tveimur mörkum fyrir Blika á 16. og 18. mínútu og þeir voru því þar með skyndilega komnir í 2:1.
„Við komum sterkir til baka, menn létu þetta ekki á sig fá, og við skoruðum tvö mörk með harðfylgi. Mér leið vissulega vel í þeirri stöðu en það sem ég óttaðist var það sem gerðist undir lok fyrri hálfleiks þegar við drógum okkur mjög aftarlega á völlinn. Ég er ekki viss um að við hefðum lifað af mjög margar mínútur í viðbót þannig,“ sagði Halldór en Blikum tókst að halda forystunni þar til flautað var til hálfleiks.
„Þess vegna var ég gríðarlega stoltur af liðinu í byrjun síðari hálfleiks þegar við vorum líklegri til að komast í 3:1 en þeir til að gera eitthvað. Það var súrt að fá á okkur vítaspyrnu nokkrum sekúndum eftir að við áttum að fá vítaspyrnu. Það var gríðarlega svekkjandi,“ sagði Halldór og vísaði til atviks þar sem Blikar töldu að brotið hefði verið á Davíð Ingvarssyni þegar hann reyndi að ná til boltans í markteig Gent.
„Þetta sneri leiknum alveg en eftir að þeir komust í 3:2 áttum við góðan lokakafla. Þeir voru komnir í nauðvörn og skiptu þrisvar sinnum um leikkerfi, settu inn fleiri og fleiri haffsenta til að múra fyrir markið sitt en náðu því samt ekki. Við komumst í fyrirgjafarstöður og skotstöður, náðum í föst leikatriði.
Ég veit ekki hvort menn átta sig á því að það var ekki hægt að taka hornspyrnur, það var svell við hornfánana, þannig að við reyndum að gera gott úr því með því að spila stutt. En við fengum klárlega færi til að jafna en mér finnst að við hefðum átt skilið að fá að minnsta kosti stig,“ sagði Halldór.
Blikar hafa nú tapað þrisvar með eins marks mun í fjórum leikjum í keppninni en eiga enn eftir að ná í sitt fyrsta stig.
„Þessi leikur var aðeins öðruvísi en þegar við töpuðum 3:2 í Ísrael. Þá vorum við orðnir dálítið kraftlausir í lokin en nú vorum við að sækja þetta, vorum alveg eins líklegir til að komast yfir aftur þegar staðan var 2:2, og það var margt virkilega jákvætt við þetta í kvöld.“
Blikar eiga eftir að leika við Maccabi Tel Aviv á Laugardalsvelli 30. nóvember og gegn Zorya í Póllandi 14. desember og Halldór tók undir það að krefjandi tími væri fram undan fyrir hann og Blikaliðið.
„Ég held að fyrsta virkilega prófraunin á það komi núna þegar eru þrjár vikur á milli leikja. Þetta er búið að sleppa ágætlega hingað til og nú tekur við Bose-mótið næstu tvær helgar, þannig að við fáum tvær æfingavikur með endapunkti. Við mætum Stjörnunni og KR í þessum leikjum og það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur. Við tökum þessum leikjum alvarlega og notum þá til að halda okkur gangandi. Þeir verða mikilvægir fyrir okkur til að halda uppi dampi og ákefð,“ sagði Halldór Árnason.