Arnar í viðræðum við Íslendingafélagið

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu karla, á í viðræðum við sænska félagið Norrköping um að taka við stjórnartaumunum hjá karlaliðinu.

Fótbolti.net greinir frá.

Glen Riddersholm var vikið úr starfi þjálfara Norrköping á mánudag eftir vonbrigðatímabil þar sem liðið hafnaði í níunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar.

Félagið er því í leit að nýjum þjálfara og rennir hýru auga til Arnars, sem hefur náð frábærum árangri með Víkingi undanfarin ár.

Norrköping er mikið Íslendingalið þar sem þeir Arnór Ingvi Traustason, Ísak Andri Sigurgeirsson og Andri Lucas Guðjohnsen, sem leikur á láni hjá Lyngby, eru á mála hjá félaginu auk þess sem Ari Freyr Skúlason lék sinn síðasta leik á ferlinum fyrir liðið um síðustu helgi.

Uppfært kl. 10:27: Í samtali við Fótbolta.net vísar Arnar því á bug að hann hafi átt í viðræðum við nokkurt annað félag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert