Slakur varnarleikur varð Íslandi að falli

Orri Steinn Óskarsson og Andri Lucas Guðjohnsen skoruðu mörk íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið þurfti að sætta sig við tap, 4:2, gegn Slóvakíu í J-riðli undankeppni EM 2024 á Tehelné pole-vellinum í Bratislava í Slóvakíu í kvöld.

Íslenska liðið á því ekki lengur möguleika á því að enda í öðru sæti riðilsins eftir úrslit kvöldsins en Slóvakar, sem voru í öðru sætinu með 16 stig fyrir leik kvöldsins, tryggðu sér með sigrinum sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Þýskalandi næsta sumar.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og á 17. mínútu átti Guðlaugur Victor Pálsson frábæra sendingu fram völlinn úr öftustu víglínu.

Boltinn fór á milli varnarmanna Slóvakíu og beint á kollinn á Orra Steini Óskarssyni sem átti frábæran skalla, úr miðjum vítateig Slóvaka, og boltinn söng í netinu.

Slóvakar fljótir að svara

Slóvakar settu mikla pressu á íslenska liðið eftir þetta og á 30. mínútu tókst Juraj Kucka að jafna metin.

Lukás Haraslín átti þá frábæra hornspyrnu frá vinstri, beint á kollinn á Kucka sem stökk hæst á nærstönginni en hann stýrði boltanum snyrtilega í hornið fjær og staðan var orðin 1:1.

Sex mínútum síðar fór svo Ondrej Duda niður í vítateig íslenska liðsins eftir baráttu við Kristian Nökkva Hlynsson. Craig Pawson, dómari leiksins, lét sér fátt um finnast en eftir að VAR-myndbandsdómgæslan hafði skoðað atvikið var Pawson sendur í skjáinn.

Hann þurfti ekki mikinn tíma til þess að horfa á endursýninguna og benti strax á punktinn. Duda fór sjálfur á punktinn og þrátt fyrir að Elías Rafn Ólafsson hafi verið í boltanum og skutlað sér í rétt horn tókst honum ekki að verja spyrnuna. Slóvakar leiddu því 2:1 í hálfleik.

Matraðabyrjun á síðari hálfleik

Það voru ekki nema tvær mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Lukás Haraslín skoraði þriðja mark Slóvaka en hann fékk boltann utarlega úti vinstra megin. Hann keyrði í átt að varnarmönnum íslenska liðsins og í stað þess að mæta honum bökkuðu þeir frá honum. Hann skrúfaði boltann svo snyrtilega í fjærhornið úr miðjum teignum, í stöngina og inn, og staðan var orðin 3:1.

Sjö mínútum síðar var Haraslín aftur á ferðinni og markið var keimlíkt því fyrra. Hann fékk boltann úti vinstra megin, keyrði í átt að teignum og átti hnitmiðað skot, með hægri fæti, sem söng í fjærhorninu.

Andri Lucas Guðjohnsen klóraði í bakkann fyrir íslenska liðið á 74. mínútu með sinni fyrstu snertingu í leiknum eftir að hafa komið inn á sem varamaður mínútu áður.

Stoltið undir í Lissabon

Jóhann Berg Guðmundsson átti þá frábæra hornspyrnu frá hægri og Andri Lucas setti hnéð í boltann úr miðjum markteignum og staðan var orðin 4:2.

Fátt markvert gerðist í leiknum eftir þetta. Slóvakar tóku góðan tíma í allar sínar aðgerðir á vellinum og leikurinn svo gott sem fjaraði út.

Ísland er með tíu stig í fjórða sæti riðilsins og getur ekki endað ofar en Portúgal, sem er með 27 stig, og Slóvakía, sem er með 19 stig, eru bæði komin í lokakeppnina.

Lúxemborg er í þriðja sætinu með 14 stig, Bosnía er með níu stig í fimmta sætinu og Liechtenstein er án stiga í neðsta sæti riðilsins.

Lokaleikur Ísland er gegn Portúgal í Lissabon á sunnudaginn kemur og lítið sem ekkert undir hjá íslenska liðinu í þeim leik, annað en stoltið.

Slóvakía 4:2 Ísland opna loka
90. mín. Róbert Bozeník (Slóvakía) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert