Bætt frammistaða ekki nóg í Lissabon

Willum Thor Willumsson og Joao Palhinha eigast við í kvöld.
Willum Thor Willumsson og Joao Palhinha eigast við í kvöld. AFP/Patricia Del Melo

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mátti þola 2:0-tap á útivelli gegn Portúgal í lokaleik liðsins í J-riðli í undankeppni EM í Lissabon í kvöld. Íslenska liðið endar í fjórða sæti af sex liðum, með tíu stig. Portúgal vann riðilinn með sannfærandi hætti, með fullt hús stiga.

Eins og við var að búast var portúgalska liðið mun meira með boltann og sótti nokkuð þétt að íslenska markinu stóran hluta fyrri hálfleiks. Það gekk þó illa að skapa mjög opin færi, gegn góðri íslenskri vörn og öruggum Hákoni Rafni Valdimarssyni þar fyrir aftan.

Þurfti Hákon ekki oft að taka á honum stóra sínum, en hann var klár þegar Íslandi þurfti á honum að halda.

Íslenska liðið átti svo sína spretti í sóknarleiknum og Arnór Sigurðsson fékk besta færi Íslands á 17. mínútu þegar hann skaut rétt framhjá úr teignum eftir skemmtilegan samleik við Alfreð Finnbogason.

Hákon og íslenska vörnin þurftu hins vegar að játa sig sigruð á 37. mínútu þegar Bruno Fernandes átti hnitmiðað skot utarlega í teignum í bláhornið fjær. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri. Portúgal var mun meira með boltann, en tókst illa að skapa sér mjög opin færi. Rétt eins og í fyrri hálfleik skoraði portúgalska liðið hins vegar eina markið.

Það gerði Ricardo Horta á 66. mínútu, skömmu eftir að hann kom inn á sem varamaður. Horta skoraði þá af stuttu færi eftir að Hákon missti boltann klaufalega frá sér eftir skot frá Joao Félix.

Besta færi Íslands kom í uppbótartíma. Fyrst átti Orri Steinn Óskarsson skot sem Costa í marki Portúgals varði fyrir fætur Arnórs sem skaut þá í varnarmann og í þverslána. Urðu tækifærin ekki fleiri og 2:0-sigur Portúgals raunin.

Portúgal 2:0 Ísland opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert