„Þetta var mjög fínt,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, í samtali við Stöð 2 Sport eftir 2:0-tap Íslands gegn Portúgal á útivelli í lokaleik liðanna í J-riðli í kvöld.
„Við vörðumst vel og vorum skipulagðir. Við lögðum leikinn svona upp. Okkur tókst það vel í kvöld. Þetta var svipað og í heimaleiknum gegn Portúgal og þetta var betra en fyrir nokkrum dögum,“ sagði Guðlaugur og hélt áfram:
„Þetta er það sem passar vel fyrir okkur, að vera með þessi gildi. Þetta er okkar leið þegar kemur að varnarleiknum. Við fáum svo alltaf einhver færi. Ef við höldum hreinu eru alltaf stig í boði.
Við verðum að halda áfram að gera það sem við erum góðir í. Við vörðumst ógeðslega vel og þetta er íslenska leiðin. Þetta var skásti útileikurinn okkar, því við fórum í það sem við kunnum og erum góðir í. Við vorum að spila á móti einu besta liði heims,“ sagði hann.