Danski knattspyrnumaðurinn Kennie Chopart hefur komist að samkomulagi við Fram um að leika með liðinu á næsta tímabili.
Kennie kemur frá KR þar sem hann lék undanfarin átta tímabil við góðan orðstír. Varð hann til að mynda Íslandsmeistari með liðinu árið 2019.
Hann hefur á ferlinum einnig leikið með Fjölni og Stjörnunni hér á landi og alls eru leikirnir orðnir 216 í efstu deild, þar sem Kennie hefur skorað 36 mörk.
Hann vann með Rúnari Kristinssyni, nýráðnum þjálfara Fram, undanfarin ár hjá KR og halda þeir kumpánar því samstarfi sínu áfram.
„Við hlökkum til að fá þá reynslu sem Kennie færir okkur. Bjóðum hann hjartanlega velkominn kæru Framarar!“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild Fram.