Edda Garðarsdóttir hefur formlega verið ráðin aðstoðarþjálfari kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu.
Nik Chamberlain, nýráðinn þjálfari Breiðabliks, greindi frá því í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að Edda yrði honum til aðstoðar líkt og undanfarin ár hjá Þrótti úr Reykjavík og nú hefur knattspyrnudeild Breiðabliks tilkynnt um ráðninguna.
Edda býr yfir töluverðri reynslu sem þjálfari þar sem hún þjálfaði kvennalið KR um tveggja ára skeið á árunum 2015 til 2017, hefur unnið náið með Nik hjá Þrótti frá árinu 2019 og orðið sér úti um hæstu þjálfararéttindi UEFA, UEFA Pro-þjálfaragráðuna.
Reynsla Eddu sem leikmanns er þá gífurleg þar sem hún lék til að mynda 103 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, þar á meðal á EM 2009.
Lengst af á ferlinum lék hún með KR en einnig um skeið með Breiðabliki, árin 2005 og 2006, og var auk þess lengi vel atvinnumaður.