Fanndís og Fanney framlengja við Íslandsmeistarana

Fanndís Friðriksdóttir í leik með Val í sumar.
Fanndís Friðriksdóttir í leik með Val í sumar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Knattspyrnukonurnar Fanndís Friðriksdóttir og Fanney Inga Birkisdóttir hafa báðar skrifað undir nýja samninga við Íslandsmeistara Vals.

Í tilkynningu frá knattspyrnudeild Vals kemur ekki fram hversu lengi nýju samningarnir gilda.

Fanndís er 33 ára gömul og hefur verið á mála hjá Val frá árinu 2018.

Hún lék 16 leiki í Bestu deildinni á síðasta tímabili og skoraði í þeim fjögur mörk þegar Valur varði Íslandsmeistaratitilinn.

Fanndís hefur leikið 232 leiki í efstu deild fyrir Breiðablik og Val og skorað 115 mörk. Þá á hún að baki 109 A-landsleiki og skoraði í þeim 17 mörk.

Fanney Inga er 18 ára gamall markvörður sem festi sig í sessi sem aðalmarkvörður Vals á síðasta tímabili og lék 21 af 22 leikjum liðsins í Bestu deildinni.

Alls hefur hún leikið 22 leiki fyrir Val í efstu deild og níu leiki í 1. deild fyrir FH, þar sem Fanney Inga lék sem lánsmaður sumarið 2022.

Hún er í A-landsliðshópi Íslands fyrir leiki gegn Wales og Danmörku í Þjóðadeild UEFA í byrjun desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert