Ísland verður í umspilinu um sæti á Evrópumóti karla 2024 í fótbolta. Það komst á hreint í gærkvöld með úrslitum í leikjum annarra þjóða eins og fjallað er ítarlega um í Morgunblaðinu.
Þar með liggur fyrir að mark sem Mikael Anderson skoraði á dramatískan hátt gegn Albaníu 27. september árið 2022 er enn dýrmætara en það virtist vera á þeirri stundu.
Íslenska liðið var að tapa gegn Albaníu í Tirana þegar komið var fram í uppbótartíma í lokaleiknum í Þjóðadeildinni þá um haustið og þar með hefði þriðja sætið orðið hlutskiptið í riðlinum í B-deildinni.
Markið góða hjá Mikael sá til þess að nú verður í það minnsta einn umspilsleikur, vonandi tveir, fram undan í marsmánuði. Ef allt gengur upp er Ísland á leið á EM í annað sinn.
Bakvörðinn má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.