Íslenska U19-ára landsliðið í knattspyrnu karla vann öruggan sigur á Eistlandi, 3:0, í síðasta leik sínum í riðli 1 í 1. umferð undankeppni EM 2024 í Frakklandi í dag. Ljóst er að Ísland kemst ekki áfram í 2. umferð undankeppninnar.
Eftir markalausan fyrri hálfleik opnuðust flóðgáttir í þeim síðari.
Benoný Breki Andrésson braut ísinn með marki úr vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks.
Ágúst Orri Þorsteinsson tvöfaldaði forystuna eftir rúmlega klukkutíma leik og stuttu síðar, á 68. mínútu kom þriðja markið.
Þar var á ferðinni Benoný Breki öðru sinni og niðurstaðan öruggur 3:0-sigur.
Danmörk hafði betur gegn Frakklandi, 2:1, á sama tíma og þar með er ljóst að Ísland hafnar í þriðja sæti riðils 1, sem er ekki nóg til þess að komast áfram í 2. umferð.
Danmörk vann riðilinn með sjö stigum, Frakkland vann sér inn sex stig og Ísland fékk fjögur. Eistland rak lestina án stiga.
Aðeins eitt lið með bestan árangur í þriðja sæti úr 13 riðlum í 1. umferð undankeppninnar kemst í næstu umferð og sem stendur er útlit fyrir að það lið verði Grikkland úr riðli 8.