Reyndasti Víkingurinn framlengir

Halldór Smári Sigurðsson í leik gegn Stjörnunni í vor.
Halldór Smári Sigurðsson í leik gegn Stjörnunni í vor. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Halldór Smári Sigurðsson, reyndasti leikmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings í knattspyrnu, hefur framlengt samning sinn við félagið.

Halldór Smári, sem er 35 ára gamall, hefur leikið allan sinn feril með Víkingi og spilað með meistaraflokki félagsins frá árinu 2008. Hann gekk því gegnum flakk félagsins á milli deilda fyrstu árin og hefur síðan unnið fjóra bikarmeistaratitla og tvo Íslandsmeistaratitla með því frá árinu 2019.

Halldór er leikjahæstur í sögu Víkings, í öllum mótum, og einn af sárafáum Íslendingum sem hafa spilað 400 mótsleiki fyrir eitt og sama félagið. Þeim áfanga náði hann haustið 2022.

Í efstu deild er hann næstleikjahæstur hjá Víkingi frá upphafi með 197 leiki og vantar þar sjö leiki til að jafna félagsmet Magnúsar Þorvaldssonar.

Í ár lék Halldór 25 af 27 leikjum Víkinga í deildinni þegar þeir urðu Íslandsmeistarar með yfirburðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert