Óvissa ríkir um framtíð knattspyrnumannsins Kristins Jónssonar en hann yfirgaf KR á dögunum eftir sex ár í herbúðum félagsins.
Kristinn, sem er 33 ára gamall, á að baki 268 leiki í efstu deild með KR og uppeldisfélagi sínu Breiðabliki þar sem hann hefur skorað 18 mörk.
Hann hefur einnig leikið með Brommapojkarna í Svíþjóð og Sarpsborg og Sogndal í Noregi á atvinnumannaferlinum.
„Ég er búinn að vera í fríi undanfarna daga þar sem maður hefur nýtt tímann vel til þess að njóta með fjölskyldunni,“ sagði Kristinn í samtali við mbl.is.
„Það er virkt samtal í gangi núna við einhver lið og það fór í raun allt á fullt eftir að ég kom heim frá útlöndum. Ég geri fastlega ráð fyrir því að mín mál skýrist á næstu tveimur til þremur vikum.
Ég ætla mér að spila áfram í Bestu deildinni en af virðingu við þau félög sem ég er í viðræðum við ætla ég ekki að nefna þau á nafn,“ sagði Kristinn sem hefur meðal annars verið orðaður við bæði endurkomu í Breiðablik sem og við Fram þar sem hans fyrrverandi þjálfari hjá KR, Rúnar Kristinsson, þjálfar núna.
Kristinn varð Íslandsmeistari með KR-ingum árið 2019 og hefur verið í algjöru lykilhlutverki í Vesturbænum frá því hann kom frá Breiðabliki árið 2018.
„Það var erfitt að kveðja KR-ingana enda var maður búinn að vera í Vesturbænum í einhver sex ár. Margir af þeim strákum sem ég hef spilað með í gegnum tíðina eru hins vegar horfnir á braut núna og það gerði þessa ákvörðun aðeins auðveldari.
Ferillinn hjá okkur fótboltamönnum er ekki mjög langur og ég er orðinn 33 ára gamall. Mér finnst ég eiga nóg inni enn þá og það var kominn tími á nýja áskorun líka. Ég fann það hjá sjálfum mér að mig langaði að prófa eitthvað nýtt og annað umhverfi.“
Gregg Ryder, nýráðinn þjálfari Vesturbæinga, greindi frá því í hlaðvarpsþættinum Dr. Football, að Kristinn hefði yfirgefið KR þar sem nýr æfingatími meistaraflokksins hentaði honum ekki.
„Ég ætla svo sem ekki að tjá mig eitthvað sérstaklega um þessi ummæli en þetta var fullmikil einföldun hjá Gregg Ryder. Ákvörðun mín að yfirgefa KR var ekki tekin eingöngu út frá æfingatímum liðsins.
Þú horfir á heildarpakkann þegar að þú ert að vega og meta hlutina og eins og ég sagði áðan þá langaði mig að prófa eitthvað nýtt og þetta var fullkominn tímasetning fyrir það,“ bætti Kristinn við í samtali við mbl.is.