Guðni vill formannsstólinn á nýjan leik

Guðni Bergsson.
Guðni Bergsson. mbl.is/Hari

Guðni Bergsson hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, á ársþingi sambandsins sem fram fer í febrúar á næsta ári á Ísafirði.

Þetta tilkynnti hann í fréttatilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum í dag.

Guðni lét af störfum sem formaður KSÍ í ágúst árið 2021 eftir að sambandið var harðlega gagnrýnt fyrir þöggun og meðvirkni með gerendum innan sambandsins.

Guðni var kjörinn formaður KSÍ í febrúar 2017 í Vestmannaeyjum og hafði þá betur gegn Birni Einarssyni með 83 atkvæðum gegn 66 atkvæðum.

Yfirlýsing Guðna Bergssonar:

Eftir fjölda áskorana og hvatningu frá góðu fólki í knattspyrnuhreyfingunni hef ég ákveðið að bjóða mig fram sem formaður KSÍ á ársþingi sambandsins sem fram fer í lok febrúar á næsta ári. 

Fótboltinn hefur verið í stóru hlutverki allt mitt líf og ég brenn fyrir íþróttina. Ég vil halda áfram að leggja mitt af mörkum til þess að vinna að því að gera gott starf KSÍ og aðildarfélaganna enn betra.

Verkefnin framundan eru mörg og fjölbreytt. Í þeim verkefnunum sem öðrum skiptir máli að við vinnum öll í saman að framgangi fótboltans í landinu. Fótboltinn samanstendur af mörgum þáttum en er ein öflug heild sem stöðugt þarf að huga að.

Ég mun fara betur yfir helstu stefnumál mín og áherslur þegar nær dregur ársþingi.

Með fótboltakveðju,
Guðni Bergsson

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert