Hjakkað í sama fari í áratugi

Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Kristjánsson lét í haust af störfum sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki. Í síðasta mánuði tók hann svo við sem þjálfari kvennaliðs Þróttar úr Reykjavík.

Ólafur kunni vel við sig í starfi yfirmanns knattspyrnumála en í sumar ákvað stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks að láta hann fara.

Spurður hvort honum hefði hugnast að taka við starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá öðru félagi, áður en Ólafur ákvað að þekkjast boð Þróttar um að snúa aftur í þjálfun, sagði hann:

„Að því gefnu að umhverfið sé tilbúið að taka á móti svoleiðis starfi. Ef við horfum á landslagið í íþróttum, Vésteinn Hafsteinsson [afreksstjóri ÍSÍ] er að koma hérna inn og er að tala um hluti eins og að við þurfum að auka fagmennsku og auka stuðningsapparatið í kringum íþróttirnar.

Mín skoðun er sú að þá finnst mér það skjóta skökku við að fjölmennasta og stærsta íþróttagreinin er einhvern veginn ennþá að hjakka í sama fari og var fyrir 20-25 árum síðan.

Ef við lítum á það sem er vinsælt að gera, það sem er að gerast í kringum okkur, þá hefur þessi þáttur aukist.“

Félögin átti sig á þörfinni

„Við erum með þjálfara, það er frábært, en við þurfum að fá inn einhverja faglega yfirstjórnendur í félögunum, því að stjórnarfólk kemur úr annarri átt.

Það þarf þá að vera þannig að það séu forsendur fyrir því að félagið sé tilbúið að taka inn aðila sem hefur þessi verkefni á sinni könnu.

Ég velti því fyrir mér hvort félögin séu búin að átta sig á því að það sé þörf á því,“ bætti Ólafur við.

Ítarlega er rætt við Ólaf á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert