„KSÍ vinnur náið með lögregluyfirvöldum“

Klæmint Olsen í baráttunni í fyrri leik liðanna í Ísrael …
Klæmint Olsen í baráttunni í fyrri leik liðanna í Ísrael í september. Ljósmynd/Maccabi Tel Aviv

Forráðamenn Breiðabliks, Knattspyrnusambands Íslands og lögregluyfirvöld hér á landi eru byrjuð að undirbúa sig fyrir leik Breiðabliks og ísraelska liðsins Maccabi Tel Aviv í B-riðli Sambandsdeildar karla í knattspyrnu sem fram fer á Laugardalsvelli þann 30. nóvember.

Þetta staðfestu Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, og Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Búast má við miklum mótmælum í kringum leikinn vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðahafs þar sem stríðsátök hafa brotist út á milli Ísraels og Palestínu.

Þekkja svona leiki

„KSÍ vinnur náið með lögregluyfirvöldum hér á landi í aðdraganda leiksins,“ sagði Klara í samtali við mbl.is í dag.

„Við höfum átt gott samtal við alla málsaðila varðandi gæsluna í kringum leiki og við búum að því að þekkja svona leiki ágætlega.

Öryggisstjóri KSÍ er einnig í stóru hlutverki þegar kemur að undirbúningi fyrir þessa leiki og við verðum vel undirbúin fyrir fimmtudaginn,“ bætti Klara við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert