Sú besta missir af leiknum við Ísland

Pernille Harder hefur verið í lykilhlutverki hjá Dönum um árabil.
Pernille Harder hefur verið í lykilhlutverki hjá Dönum um árabil. AFP/Franck Fife

Pernille Harder, leikmaður Bayern München og besta knattspyrnukona Dana undanfarin ár, verður ekki með gegn Íslandi í Þjóðadeildinni þegar liðin mætast í lokaumferð riðlakeppninnar 5. desember.

Harder fer úr leik vegna meiðsla í hné, en hún missti líka af  fyrri leiknum á Laugardalsvellinum í lok október sem Danir unnu naumlega, 1:0.

Simone Boye getur ekki heldur leikið með Dönum í leikjunum tveimur í byrjun desember, vegna meiðsla, en Danir mæta Þýskalandi í hálfgerðum úrslitaleik riðilsins í Rostock 1. desember. Liðin berjast um sigur og sæti í undanúrslitum keppninnar, þar sem jafnframt er keppt um sæti á Ólympíuleikunum í París 2024.

Þá hefur Nicolai Sörensen, leikmaður Everton, ákveðið að leggja skóna á hilluna, aðeins 26 ára  gömul, og er ekki í hópnum. Hún var varamaður í leiknum gegn Íslandi í október og kom ekki við sögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert