„Þetta er bara spennandi. Ég hafði vonast eftir nýrri áskorun í þjálfun, sem ég hef stundað í 25 ár eins og leigubílstjórinn sagði. Það eru sömu mekanismar en viðfangsefnið af öðru kyni,“ sagði Ólafur Kristjánsson, nýráðinn þjálfari kvennaliðs Þróttar úr Reykjavík, í samtali við Morgunblaðið.
Skrifaði hann undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Þróttar undir lok síðasta mánaðar.
Ólafur hefur líkt og hann bendir sjálfur á verið lengi í þjálfun en þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem hann stýrir kvennaliði. Býst Ólafur við miklum mun á því að þjálfa konur og karla?
„Það er eiginlega ekki gott að vera með einhverjar fyrirframgefnar skoðanir um að það hljóti að vera munur eða enginn munur. Það er eiginlega sú forvitni sem rak mig af stað í þetta; að fá að kynnast því á eigin skinni hvort það væri einhver munur og hver hann væri ef einhver.
Það er voðalega auðvelt að segja að þetta sé alveg eins eða það sé örugglega munur. Það eru nokkrir sem hafa prófað hvort tveggja og eru klókari en ég, allavega á þessum tímapunkti, hvað það varðar,“ sagði hann.
„En mér fannst þetta spennandi, að sjá hvort það væri einhver munur, þótt það hafi ekki verið aðaldrifkrafturinn. Það er augljóst að líkamlega er og verður alltaf einhver munur.
Sumir segja að það eigi ekki að þjálfa konur eins og karla; konur séu ekki „míní-útgáfur“ af körlum hvað þjálfun viðkemur,“ hélt Ólafur áfram.
Spurður hvort honum hafi áður boðist að gerast þjálfari kvennaliðs sagði Ólafur: „Nei, aldrei.“
Síðast starfaði hann sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki í um eitt og hálft ár. Ólafur kveðst hafa verið ánægður í því starfi og lék blaðamanni því forvitni á að vita hvernig honum liði með að vera kominn aftur í þjálfun.
„Mér fannst það sem ég var að gera hjá Breiðabliki síðustu misserin mjög spennandi líka og það var í sjálfu sér ekki margt sem hefði rifið mig aftur í þjálfaragallann, en þetta var eitt af því,“ útskýrði Ólafur.
Viðtalið við Ólaf má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.