„Reynslan skiptir öllu máli,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum í dag.
Ísland mætir Ísrael á útivelli í undanúrslitum umspils um sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2024 sem fram fer í Þýskalandi næsta sumar. Sigurvegarinn mætir svo Úkraínu í úrslitaleik um sæti í lokakeppninni og fer sá leikur einnig fram á útivelli.
Íslenska liðið komst líka í umspil um sæti í lokakeppni EM 2021 en eftir sigur gegn Rúmeníu á Laugardalsvelli í undanúrslitum tapaði liðið gegn Ungverjalandi, 2:1, í Búdapest þar sem Ungverjar skoruðu tvívegis á lokamínútum leiksins.
„Við erum með leikmenn sem hafa farið þessa leið áður en það er alveg ljóst að yngri leikmönnum liðsins skortir reynslu í svona stórum leikjum,“ sagði Hareide.
„Við höfum hins vegar verið að gefa ungum strákum tækifæri í undankeppninni og þeir hafa öðlast mjög dýrmæta reynslu. Þessi leikur gegn Ísrael mun hjálpa þeim ennþá meira til langs tíma litið.
Það er hlutverk reynslumestu leikmanna liðsins að leiða liðið áfram og vonandi getum við stillt upp góðri blöndu af leikmönnum gegn Ísrael,“ sagði landsliðsþjálfarinn.