Ástæðan fyrir því að ég vel hann alltaf

Aron Einar Gunnarsson fagnar eftir sigurinn gegn Liechtenstein í október.
Aron Einar Gunnarsson fagnar eftir sigurinn gegn Liechtenstein í október. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að hann verði klár í slaginn í mars,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum í gær þegar hann ræddi landsliðsfyrirliðann Aron Einar Gunnarsson.

Ísland mætir Ísrael á útivelli í undanúrslitum umspils um sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2024 sem fram fer í Þýskalandi næsta sumar. Sigurvegarinn mætir svo Úkraínu í úrslitaleik um sæti í lokakeppninni og fer sá leikur einnig fram á útivelli.

Gríðarlega mikilvægur

Aron Einar hefur lítið spilað á þessari leiktíð og þá hefur hann einnig verið að glíma við meiðsli.

„Hann er okkur gríðarlega mikilvægur, innan sem utan vallar og það er ástæðan fyrir því að ég vel hann alltaf í landsliðshópinn,“ sagði Hareide.

„Hann er leiðtoginn í landsliðinu og hann er líka frábær fyrirmynd fyrir ungu strákana. Hann stendur fyrir allt sem við viljum standa fyrir og hann elskar að spila fyrir Ísland.

Hann er með frábært hugarfar líka og hann þarf að vera klár í mars fyrir okkur. Ég er sannfærður um það að hann muni finna sér nýtt félag í Katar í janúar,“ bætti Hareide við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert