Ísland fékk betri kost

Hákon Arnar Haraldsson í leik með íslenska landsliðinu gegn því …
Hákon Arnar Haraldsson í leik með íslenska landsliðinu gegn því ísraelska sumarið 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Var karlalandslið Íslands í fótbolta „heppið“ að dragast frekar gegn Ísrael en Wales í undanúrslitum umspilsins fyrir EM 2024?

Sennilega er hægt að svara spurningunni játandi. Ísrael ætti að vera viðráðanlegri mótherji og er þekkt stærð eftir tvö jafntefli þjóðanna í Þjóðadeildinni 2022, fyrst 2:2 í Tel Aviv og síðan 2:2 á Laugardalsvellinum.

Heimslisti FIFA er sammála því að þjóðirnar séu svipaðar að styrkleika en þar er Ísland í 67. sæti og Ísrael er næsta „Evrópuþjóð“ á eftir í 71. sætinu.

Komist Ísland í gegnum þá viðureign bíður útileikur gegn sigurliðinu úr viðureign Bosníu og Úkraínu, þar sem Úkraínumenn eru mun sigurstranglegri. Þeir eru í 22. sæti heimslistans en Bosnía í 63. sæti.

Óvissa um leikstað

Í dag veit enginn hvort Ísrael geti leikið á heimavelli þegar að umspilinu kemur 21. mars en sem stendur spila landslið þjóðarinnar heimaleiki sína í Ungverjalandi vegna stríðsástandsins á Gasa.

Og Úkraína myndi heldur ekki spila á heimavelli ef að því kæmi vegna stríðsástandsins í landinu eftir innrás Rússa.

Verst að Ísland skyldi ekki fá heimaleikinn í úrslitaleiknum sem á að fara fram 26. mars. Hann hefði að vísu ekki farið fram á Laugardalsvellinum en sennilega í Malmö, í það minnsta ef Åge Hareide hefði mátt ráða. En ef Úkraína á aðild að þeim úrslitaleik mun hann væntanlega fara fram í Þýskalandi eða Póllandi.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert