„Eigum við ekki að segja að það sé mjög gaman og krefjandi á sama tíma,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari karlaliðs FH í knattspyrnu, í Fyrsta sætinu þegar hann ræddi samstarfið við bræðurna Jón Rúnar og Viðar Halldórssyni.
Heimir, sem er 54 ára gamall, snéri aftur í Hafnarfjörðinn í nóvember á síðasta ári eftir að hafa stýrt liðinu á árunum 2008 til 2017 og gerði hann þá liðið fimm sinnum að Íslandsmeisturum.
Heimir sló í gegn í auglýsingu Bestu deildarinnar í vor ásamt bræðrunum Jóni Rúnari og Viðari en þeir vinna náið saman hjá Fimleikafélaginu núna.
„Auðvitað eru menn ekki alltaf sammála um hlutina en þú þarft að bera virðingu fyrir því að þessir menn eru vakandi og sofandi yfir félaginu sínu,“ sagði Heimir.
„En af því að við vorum að tala um þessa auglýsingu þá fannst mér við allir þrír með leiksigur og vera yfirburðamenn í auglýsingunni,“ sagði Heimir meðal annars.